Margar kisur frá Kattholti hafa fengið nýtt heimili á undanförnum tveimur vikum, að sögn Halldóru Snorradóttur, rekstrarstjóra Kattholts. Hún segir umfjöllun sem birtist í Vetrarblaði Morgunblaðsins einkum hafa haft góð áhrif á aðsóknina.
Í blaðinu, sem nýlega kom út, var greint frá því að gott væri að eiga mjúka kisu til að klappa á vetrardögum. Halldóra segir að þegar veturinn gangi í garð taki fleira fólk kisur að sér.
„Oft gengur vel í september og október og núna hefur verið brjálað að gera. Vikurnar eru mismunandi, síðustu tvær vikur hafa verið frábærar, nokkrar kisur fá heimili á dag. Svo hefur ljósmyndarinn Þórdís Reynisdóttir verið dugleg að taka myndir af köttunum og setja á facebooksíðuna okkar. Bara það að sjá svona fallegar myndir af köttunum eykur áhugann hjá fólki að kynnast þeim betur,“ segir Halldóra í umfjöllun um kisur í Kattholti í Morgunblaðinu í dag.