Dæling olíu úr sementsflutningaskipinu Fjordvik hófst á ný um áttaleytið í morgun. „Það er búið að breyta aðferðum og gera einhverjar ráðstafanir,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og kveður vonir standa til að betur gangi í dag.
Hætt var aðgerðum við Fjordvik í gærkvöldi af því að hægar gekk að dæla gasolíu úr skipinu en vonað hafði verið og var því farið í það í nótt að útvega öflugri tæki til aðgerðanna. „Það eru alls konar eðlisfræðilegar ástæður fyrir því að þetta hefur gengið hægt, t.d. er hæðarmunur á skipinu og bryggjunni,“ sagði Kjartan Már í samtali við mbl.is í gærkvöldi.
Í skipinu voru 104 tonn af gasolíu þegar það strandaði aðfaranótt laugardags.
Að sögn Kjartans Más mun dælingin taka einverja klukkutíma og ekki verður farið í aðrar aðgerðir á meðan.
Hafnaryfirvöld hafa lýst áhyggjum af því að skipið gæti sokkið verði reynt að draga það út og vilja því ekki að reynt verði að koma því inn í Helguvíkurhöfn. Höfnin sé enda mikilvæg uppskipunarhöfn fyrir eldsneyti, þ.á m. flugvélaeldsneyti. Því yrði flugsamgöngum stefnt í hættu ef það yrði reynt. Rætt hefur verið um að reyna að koma Fjordvik í Keflavíkurhöfn, en ekkert liggur fyrir í þeim efnum.