Fimm til sex tonnum dælt á klukkustund

Margir hafa lagt hönd á plóg í björgunaraðgerðum.
Margir hafa lagt hönd á plóg í björgunaraðgerðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dæling eldsneytis úr flutningaskipinu Fjordvik gengur mun betur núna en í gær og er áætlað að um 5 til 6 tonnum sé dælt úr skipinu á klukkustund. Bundnar eru vonir við að hægt verði að auka afköstin enn frekar eftir hádegi með aukabúnaði og breyttum aðferðum. Kafarar eru núna að skoða skipið.

Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, spurður út í stöðu mála vegna skipsins sem liggur við hafnargarðinn í Helguvík. Í skip­inu voru 104 tonn af gasol­íu þegar það strandaði aðfar­anótt laug­ar­dags.

Í hádeginu verður fundað um næstu skref. Fulltrúar frá Reykjanesbæ og björgunarfyrirtækinu Ardent munu þá ræða málin, ásamt væntanlega Landhelgisgæslunni og fleiri aðilum.

Spurður út í störf sérfræðingana frá Ardent sem komu til landsins um helgina segir Kjartan að þeir séu fyrst og fremst að stýra aðgerðunum og að nýjustu fréttir frá þeim séu væntanlegar í hádeginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert