Gæsluvarðhald yfir hjónum sem eru grunuð um gróf kynferðisbrot gegn dóttur sinni og stjúpdóttur hefur verið framlengt um fjórar vikur, eða til 28. nóvember.
Fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Þar var ákveðið að fresta málinu til 4. desember vegna frekari gagnaöflunar af hálfu verjenda, að sögn Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara. Þinghald er lokað eins og vaninn er í kynferðisbrotamálum.
Við fyrirtökuna þann dag stendur til að ákveða hvenær aðalmeðferð hefst. Hjónin hafa játað brot sín að hluta en Kolbrún gat ekki gefið frekari upplýsingar um málið.
Forsaga málsins er sú að stjúpdóttirin kom á lögreglustöðina á Suðurnesjum og lagði fram kæru á hendur manninum og móður sinni. Við yfirheyrslu í júlí játaði fólkið að hafa framið brotin. Konan sætti gæsluvarðhaldi en var síðan sleppt þar sem hlutur mannsins í brotinu var talinn meiri.
Eftir að ákæra var gefin út í málinu 1. október var konan aftur úrskurðuð í gæsluvarðhald. Kom þá fram að héraðssaksóknari teldi að ef konan hefði gerst sek um jafnalvarleg brot og henni væru gefin að sök myndi það valda hneykslun og særa réttarvitund almennings gengi hún laus.
Fólkið hefur viðurkennt að hafa beitt dóttur konunnar grófu ofbeldi og enn fremur að hafa gert það á meðan önnur dóttir þeirra horfði á.