Slökkvistarfi er lokið á Akureyri en þar kviknaði í fjölbýlishúsi við Strandgötu um klukkan hálf tvö í dag. Einn íbúi var fluttur á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun en fjórar íbúðir eru í húsinu.
Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, segir að slökkviliðið sé nýbúið að afhenda lögreglu vettvanginn eftir að hafa vaktað húsið seinni partinn.
„Þetta var mikill eldur,“ segir Ólafur en hann var að mestu leyti staðbundinn við eina íbúð af fjórum. Mikill hiti og eldur var á efri hæð þeirrar íbúðir og öll íbúðin full af reyk. Auk þess var kominn reykur í aðrar íbúðir.
Ólafur segir að helsta vandamálið við slökkvistarfið hafi verið eldurinn á efstu hæðum hússins. Gera þurfti gat á þak til að slökkva í glæðum og auðvelda vinnu við reykræstingu.
Ekki er hægt að segja til um eldsupptök á þessari stundu.