Telur að flugfargjöld gætu hækkað

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Hari

„Þetta styrkir horfurnar fyrir ferðaþjónustuna og dregur kannski úr óvissunni um flugsamgöngur til og frá landinu,“ segir Sigurður Örn Karlsson, greinandi hjá IFS, um kaup Icelandair á WOW air.

Aðspurður segir hann að tíðindin hafi komið sér nokkuð á óvart en auðvitað hafi þessi möguleiki komið upp í umræðunni um stöðu WOW air í haust. „Það var í sjálfu sér ekkert búist við að þetta myndi fara í gegn út af Samkeppniseftirlitinu og öðru slíku en það lítur út fyrir að það hafi verið mikil þörf fyrir þessi viðskipti,“ segir hann.

Sigurður Örn veltir fyrir sér verði á flugfargjöldum í framhaldinu, hvort þrýstingur á lágt verð verði eins mikill og hann hefur verið. Mögulega muni hækkun olíuverðs setja þrýsting á hærra verð en það hafi þó ekki verið að skila sér hingað til.  

Inntur eftir því hvort kaup Icelandair á WOW air hafi verið óhjákvæmileg vegna hugsanlegs gjaldþrots WOW air segir hann að miðað við tilkynninguna sem barst um viðskiptin líti út fyrir að skilyrðin hafi versnað töluvert hjá flugfélaginu. Þar hafi hækkandi olíuverð vafalítið haft sitt að segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert