CLN-málið fær efnislega meðferð

Frá aðalmeðferð málsins í héraði. Hreiðar Már Sigurðsson (t.h.) sem …
Frá aðalmeðferð málsins í héraði. Hreiðar Már Sigurðsson (t.h.) sem ákærður er í málinu ásamt Almari Þór Möller hdl. og aðstoðarmanni verjanda, Sigurður Einarsson, sem einnig er ákærður, og Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar. mbl.is/Golli

Héraðsdómi Reykjavíkur ber að taka CLN-málið svokallaða, sem er einnig þekkt sem Chesterfield-málið, til efnismeðferðar. Þetta er niðurstaða Landsréttar og er hún þvert á  úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í september, sem vísaði málinu frá.

Málið er eitt af svo­kölluðum hrun­mál­um, en í því voru stjórn­end­ur Kaupþings ákærðir fyr­ir umboðssvik með því að hafa lánað 508 millj­ón­ir evra frá ág­úst til októ­ber 2008 til tveggja fé­laga sem keyptu láns­hæfistengd skulda­bréf af Deutsche bank sem tengd voru skulda­trygg­inga­álagi Kaupþings. Sagði sak­sókn­ari að mark­miðið hefði verið að lækka skulda­trygg­inga­álag bank­ans.

Málið hefur farið fram og aftur í dómskerfinu, en þegar það var tekið fyrir fyrst í héraðsdómi voru allir hinna ákærðu sýknaðir. Var málinu áfrýjað til Hæstaréttar, en áður en það var tekið fyrir þar komu fram nýjar upplýsingar um að Deutsche bank hefði greitt þrota­búi Kaupþings stór­an hluta upp­hæðar­inn­ar, eða 425 millj­ón­ir evra. Ekki komu þó fram ástæður þess að upp­hæðin var greidd.

Þar sem ástæður greiðslunn­ar lágu ekki fyr­ir taldi Hæstirétt­ur að rann­saka þyrfti þessi atriði bet­ur þar sem það gæti haft þýðingu við mat á því hvort skil­yrðum umboðssvika væri full­nægt við ákvörðun um refsi­hæð ef skil­yrði fyr­ir sak­fell­ingu yrðu tal­in fyr­ir hendi. Var sýknu­dóm­ur­inn og meðferð máls­ins í héraði því ómerkt og mál­inu vísað heim í hérað til lög­legr­ar meðferðar á ný. Hóf ákæru­valdið því rann­sókn á mál­inu að nýju með það fyr­ir aug­um að fá glögga mynd af ástæðum þess að Deutsche bank greiddi þess­ar upp­hæðir til Kaupþings og fé­lag­anna tveggja.

Niðurstaða héraðsdóms var að ákæruvaldið hefði hins vegar ekki rannsakað sem skyldi þau atriði sem Hæstirétt­ur taldi að rann­saka þyrfti. Var málinu því vísað frá héraðsdómi, en ákæruvaldið kærði þá niðurstöðu til Landsréttar.

Landsréttur úrskurðaði svo fyrir helgi um að héraðsdómi bæri að taka málið fyrir efnislega og er meðal annars vísað til þess að ákæruvaldið telji ekki að samkomulagið um greiðslurnar frá Deutsche bank hafi þýðingu fyrir grundvöll málsins né við mat á því hvort skilyrði umboðssvika séu uppfyllt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka