Far-vel tekur yfir samning Prime Tours

Fyrirtækið Far-vel gerði tilboð í rekstrarvagna þrotabús Prime Tours og …
Fyrirtækið Far-vel gerði tilboð í rekstrarvagna þrotabús Prime Tours og bauð starfsfólki þess áframhaldandi starf. mbl.is/Eyþór

Strætó bs. hefur gert samning við fyrirtækið Far-vel ehf.  um framsal á rammasamningi Prime Tours um akstursþjónustu fatlaðra, en Prime Tours var úrskurðað gjaldþrota 17. október.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Strætó að fyrirtækið hafi frá þeim tíma verið með til skoðunar hvernig hægt sé að tryggja að þjónustan uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Höfuðmarkmið Strætó í akstursþjónustu fyrir fatlaða sé „að tryggja hnökralausa þjónustu“.

Í kjölfar gjaldþrots Prime Tours hafi skiptastjóri þrotabúsins óskað eftir samþykki Strætó bs. á framsali rammasamnings til annars rekstraraðila, Far-vel ehf., sem gert hafði tilboð í rekstrarvagna þrotabúsins og boðið starfsfólki þess áframhaldandi starf.

„Fyrir liggur að Far-vel ehf. fullnægir öllum hæfisskilyrðum rammasamningsins og hefur því stjórn Strætó bs. samþykkt erindi skiptastjóra um framsal samningsins fyrir sitt leyti,“ segir í tilkynningunni.  Strætó telji að þar með hafi farþegum í akstursþjónustu fatlaðs fólks verið tryggð fullnægjandi þjónusta út gildistíma rammasamningsins sem gildir til loka ársins 2019.

Bæði í stjórn Far-vel og Prime Tours

Einn af stjórnarmönnum Far-vel var einnig stjórnarmaður í Prime Tours, að sögn Guðmundar  Siemsen lögfræðings Strætó. Hann segir Far-vel vera með kennitölu frá 1999. „Það var í einhverjum rekstri, en hyggur nú á rekstur á ferðaþjónustusviði. Bæði hjá ferðaþjónustu fatlaðra og á almennum markaði,“ segir hann.

„Það kom þarna beiðni um framsal á þessum rammasamningi og þá er metið hvort að þessi aðili sem óskað er eftir að taki við fullnægi skilyrðunum og það var talið að svo væri,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka