Búnaði til að dæla sjó úr flutningaskipinu Fjordvik hefur verið komið fyrir á bryggjunni í Helguvík en ekki er hægt að koma honum um borð í skipið að svo stöddu vegna veðurs. Búnaðnum var flogið inn erlendis frá í nótt.
Að sögn Halldórs Karls Hermannssonar hafnarstjóra eru aðgerðir í hálfgerðri biðstöðu vegna veðurs. Þó er unnið að undirbúningi sjódælingarinnar eins og hægt er, sem og flutningi spilliefna frá borði. „Þegar veður lægir verður farið með dæluna um borð. Þá verður farið í að prufudæla og skoða möguleika um framhaldið.“
Ólíklegt er að það takist í dag, en samkvæmt veðurspám á veður eftir að versna eftir því sem líður á daginn. Allt hefur verið gert til þess að tryggja að engin hreyfing komist á skipið.
„Um leið og það er orðið öruggt verður skipið fjarlægt. Númer eitt, tvö og þrjú er að tryggja að það sé öruggt að það verði ekki fyrir hnjaski á leiðinni á þann stað sem það fær meira viðhald.“
Er orðið ljóst hvert skipið verður flutt?
„Það er farið að skoða hvað er best í því,“ segir Halldór Karl.
Greint var frá því í morgun að stærstum hluta olíunnar hefði verið dælt úr skipinu. Um borð voru rúmlega 100 tonn af olíu. Að sögn Halldórs Karls hefur olían verið flutt í geymslutanka á vegum Skipaþjónustu Íslands. Þar verður hún geymd þar til ákvörðun hefur verið tekin um hvað verði gert við hana.
Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa hjá Landhelgisgæslunni, höfðu varðskipin Þór og Týr vaktaskipti í gær. Þór er kominn aftur í Reykjavíkurhöfn en Týr er til taks utan við Helguvík. Hlutverk Landhelgisgæslunnar í flutningi Fjordvik, þegar þar að kemur, hefur ekki verið ákveðið.