Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Landsréttar um að hafna kröfu afhafnarmannsins Ólafs Ólafssonar um að Landsréttardómarinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson beri að víkja sæti í áfrýjuðu máli gegn Ólafi fyrir Landsrétti.
Í málinu sem um ræðir er tekist á um kröfu Ólafs um endurupptöku á þætti hans í Al Thani-málinu. Krefst Ólafur endurupptöku meðal annars vegna þess hann telur að Markús Sigurbjörnsson, dómari í Hæstarétti, sem Ólafur segir að sé vinur Vilhjálms, hafi ásamt öðrum sem í dómnum sátu hafi metið sönnunargögn í Al Thani-málinu rangt. Þá telji hann Vilhjálm vanhæfan vegna neikvæðra umfjöllunar tveggja sona Vilhjálms um mál Ólafs.
Þegar krafa Ólafs var tekin fyrir í Landsrétti sendi Ólafur frá sér tilkynningu. „Krafa Ólafs byggðist á að með réttu léki vafi á hæfi Vilhjálms vegna náins vinskapar hans við Markús og vegna neikvæðrar umfjöllunar um Ólaf sem tveir synir Vilhjálms hafa staðið fyrir, Ingi Freyr blaðamaður og Finnur, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara og síðar starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis sem rannsakaði sölu á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Ólafur hefur sent erindi vegna þeirrar málsmeðferðar til Mannréttindadómstóls Evrópu,“ sagði í tilkynningunni.