Tillaga um að lækka álögur á heimili

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, mun í dag leggja fram við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar 2019 tillögur sem miða að því að lækka álögur á heimilin í borginni.

„Við munum leggja til lækkun útsvars og viðbótarafslátt af fasteignasköttum eldri borgara og öryrkja. Auk þess munum við leggja til lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði enda mun lækkun á þeim skatti minnka hættu á verðhækkunum á þjónustu og húsaleigu svo dæmi séu tekin,“ segir Eyþór Arnalds í tilkynningu.

Hann segir að tillögurnar ættu að vera framlag borgarinnar í komandi kjaraviðræðum og að Reykjavíkurborg geti ekki skorast undan þeirri ábyrgð að taka þátt í að bæta kjör borgarbúa.

„Útsvarslækkun á að vera framlag Reykjavíkurborgar í komandi kjaraviðræðum. Launafólk á mikið undir því að skattar lækki nú í stað þess að höfrungahlaupið fari af stað með verðbólgu. Borgin á að leggja áherslu á að bæta kaupmátt Reykvíkinga með ábyrgum hætti og hætta að taka meira en nágrannasveitarfélögin af launum fólksins í borginni,“ segir hann í tilkynningunni.

Hér má nálgast dagskrá fundar borgarstjórnar sem hefst klukkan 14 í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert