Kafarar frá Köfunarþjónustunni munu skoða skemmdir á skipinu Fjordvik öðru sinni seinna í dag. Þá hefur dælingu olíu úr skipinu verið haldið áfram í dag. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá útgerðarfélagi Fjordvik, SMT Shipping.
Aðgerðum sem miða að því að koma skipinu aftur á flot verður áfram haldið í dag. Í tilkynningunni segir að enn séu ástæður atviksins óljósar, en að íslensk yfirvöld hafi rætt við áhöfn skipsins, sem hafi verið samvinnuþýð.
Sementflutningaskipið Fjordvik sendi út neyðarkall aðfaranótt laugardags og þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði 15 frá borði skipsins þar sem það hafði strandað við hafnargarðinn í Helguvík.
Aðgerðir hafa staðið yfir á svæðinu síðan, en veður hefur sett strik í reikninginn á köflum. Stærstum hluta olíunnar hefur verið dælt úr skipinu og þegar öryggi skipsins verður orðið tryggt mun það verða flutt í örugga höfn. Fyrir liggur að skipið verði ekki fært í höfnina í Helguvík, vegna hættu á að eitthvað fari úrskeiðis. Höfnin í Helguvík er mikilvæg uppskipunarhöfn fyrir eldsneyti og yrði flugsamgöngum stefnt í hættu.