Baldur Arnarson
Uppstokkun á sameiginlegu leiðakerfi Icelandair og WOW air getur skapað tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu.
Við breytingar á tíðni flugs til sameiginlegra áfangastaða félaganna geta enda skapast tækifæri til að hefja flug á nýja áfangastaði. Með því gæti komið nýr hópur farþega til landsins, að sögn Elvars Inga Möller, sérfræðings í greiningardeild Arion banka.
Hann leggur áherslu á að nokkur tími geti liðið áður en áhrifin koma fram. Til skemmri tíma auki uppstokkunin líkur á hægum vexti ferðaþjónustunnar á næstu misserum. Gangi það eftir gæti það haft víðtæk efnahagsáhrif.
Fá dæmi eru um að samkeppni tveggja félaga hafi haft jafn mikil áhrif á Íslandi.
Kristófer Oliversson, formaður FHG – samtaka fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir vöxt flugfélaganna hafa haft mjög jákvæð áhrif á hótelgeirann á Íslandi.
„Það má segja að í hvert sinn sem opnuð er ný flugleið sé sett ryksuga á nýtt markaðssvæði,“ segir Kristófer.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir uppganginn í fluginu hafa breytt bæjarfélaginu.