Frá því Katalóninn Jordi Pujolà fluttist hingað til lands frá Barcelona fyrir fimm árum ásamt íslenskri eiginkonu sinni og tveimur börnum hefur hann notað hvert tækifæri til að kynna Ísland fyrir löndum sínum og öfugt – Spán fyrir Íslendingum.
Fljótlega eftir búferlaflutninginn stofnaði hann bloggsíðuna escritorisislandia.com/blog, sem fær æ fleiri heimsóknir og að sama skapi verður efnið fjölbreyttara. Fyrir rúmu áru voru heimsóknirnar tólf þúsund á mánuði, en eru nú komnar upp í tuttugu þúsund.
„Markmiðið er að skapa menningarleg tengsl milli Íslands annars vegar og Spánar og Rómönsku Ameríku hins vegar og taka í því skyni viðtöl við íslenska sem og spænska rithöfunda, myndlistarmenn, tónlistarmenn sem og fólk í fjölmiðlum og pólitík svo dæmi séu tekin. Ég skrifa líka um allt milli himins og jarðar, gagnlegar upplýsingar um land og þjóð, mat og matarsiði, veitingastaði og veðrið og ekki síst mína persónulegu reynslu og upplifun,“ segir Jordi og upplýsir að bloggsíðan eigi rætur að rekja til þess að Íslenska fjallaleiðsögumenn vantaði efni á spænsku fyrir spænska ferðamenn.
Sjá viðtal við Jordi Pujolà í heild í Morgunblaðinu í dag.