Sýklalyfjaónæmar bakteríur granda tugþúsundum Evrópubúa á ári

„Þó staðan sé vissulega góð á Íslandi er mikilvægt að …
„Þó staðan sé vissulega góð á Íslandi er mikilvægt að landsmenn séu meðvitaðir um þá hættu sem steðjar að,“ segir á vef landlæknis. mbl.is/Eggert

Árlega deyja um 33.000 manns vegna sýklalyfjaónæmra baktería á Evrópska efnahagssvæðinu, samkvæmt nýrri rannsókn Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins, sem birtist í vísindatímaritinu Lancet í vikunni.

Sjúkdómsbyrðin af völdum þessara baktería er jafn mikil og sjúkdómsbyrði inflúensu, berkla og HIV og alnæmis samanlagt, en hún er þó afar breytileg á milli landa.

Mest er hún á Ítalíu og í Grikklandi, en langminnst á Íslandi. Fjallað er um niðurstöður þessarar rannsóknar á vef Embættis landlæknis.

75% sýkinganna tengjast heilbrigðisþjónustu einstakra landa samkvæmt rannsókninni og á vef embættisins segir að það sýni hversu mikilvægar sýkingavarnir innan heilbrigðisstofnana séu til að koma í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

„Þó staðan sé vissulega góð á Íslandi er mikilvægt að landsmenn séu meðvitaðir um þá hættu sem steðjar að og hversu mikilvægt er að viðhafa ákveðnar aðgerðir hér á landi til að viðhalda þeirri stöðu. Með því að draga úr útbreiðslu fjölónæmra baktería getum við haft áhrif á batahorfur sjúklinga með smitsjúkdóma og kostnað heilbrigðiskerfisins,“ segir á vef embættisins.

Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði í fyrra tillögum um hvernig draga mætti úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi og segir á vef landlæknis að þegar hafi flestar tillögurnar verið innleiddar, en þó eigi eftir að hrinda nokkrum þeirra í framkvæmd. Það verði vonandi gert á næstu misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert