Maðurinn sem er grunaður um hnífstunguárás í Þorlákshöfn á sunnudagskvöld hefur verið yfirheyrður einu sinni af lögreglunni á Suðurlandi. Búist er við að önnur skýrsla verði tekin af honum á morgun.
Aðspurður segist Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, ekkert geta sagt til um hvort játning liggi fyrir í málinu.
Maðurinn og konan sem var stungin unnu saman. Lögreglan hefur í dag rætt við vitni sem urðu að árásinni.
Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út á morgun en að sögn Odds hefur ekki verið ákveðið hvort farið verður fram á áframhaldandi varðhald.