Landsréttur hefur staðfest framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir manni sem grunaður er um alvarlega líkamsárás á dyravörð á skemmtistaðnum Shooters 26. ágúst sl.
Er maðurinn undir sterkum grun um að hafa valdið dyraverði skemmtistaðarins „stórfelldu líkamstjóni“ að því er fram kemur í úrskurðinum, sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi, en fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að dyravörðurinn sé lamaður fyrir neðan höku eftir árásina.
Einnig er tiltekið að á öryggismyndavélum sjáist maðurinn elta dyravörðinn inn á staðinn og veitast að honum, þar til þeir detta úr mynd. Skömmu síðar sést maðurinn svo hlaupa út af staðnum, þar sem hann „ræðst við fjórða mann með offorsi að hinum dyraverði staðarins,“ að því er fram kemur í úrskurðinum. Þar sjáist hann m.a. ítrekað kýla og sparka í höfuð þess dyravarðar.
Maðurinn hefur játað að hafa elt dyravörðinn sem lamaðist eftir að slagsmál brutust út milli félaga hans og dyravarðanna. Segir hann sig hins vegar minna að dyravörðurinn hafi dottið og skollið með höfuðið í vegg, en sjálfur hafi hann runnið til, dottið og slegið hægri hendi sinni í glerrúðu sem hafi við það brotnað.
Vitni sem lögregla hefur rætt við og borið undir myndband af atburðum eru sammála um að maðurinn sé sá sem á myndbandinu sést elta og veitast að dyraverðinum inni á staðnum.
Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn gildir til 19. nóvember, en ákæruvaldið gerir ráð fyrir að ákæra verði lögð fram fyrir þann tíma.