„Gert allt það sem í mínu valdi stendur“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Íslenska ríkið sem og aðstandendur Hauks Hilmarssonar eiga rétt á að fá að vita afdrif Hauks. Einhver hlýtur að vita það,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.

Spurði hún hvort íslensk stjórnvöld hefðu spurt tyrknesk stjórnvöld með beinum hætti um afdrif Hauks Hilmarssonar, og hvort utanríkisráðherra hefði krafið tyrknesk stjórnvöld svara.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kom til svara og sagði allra leiða hafa verið leitað til að komast að afdrifum Hauks. Íslensk stjórnvöld hafi ítrekað spurst fyrir um þau og fengið þau svör tyrkneskra stjórnvalda, að þau telji Hauk af.

Óásættanlegt að ekki sé hægt að komast að hinu sanna

Sagði hann hlut borgaraþjónustunnar í málinu lokið, og að ráðuneytið ráðlegði borgurum eindregið frá því að ferðast á þessum slóðum.

„Það er óásættanlegt að það sé ekki hægt að komast að hinu sanna í málinu,“ sagði Margrét.

„Ég hef gert allt það sem í mínu valdi stendur til að hjálpa til í þessu máli,“ svaraði Guðlaugur Þór.

„Ef það er eitthvað frekar sem við getum gert til að aðstoða í þessu erfiða máli þá munum við auðvitað gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert