Hlynnt breytingum á helgidagafriði

Kirkjuþing tók í gær fyrir drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um helgidagafrið þar sem gert er ráð fyrir að felld verði niður ákvæði sem banna tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á helgidögum þjóðkirkjunnar. Þá er lagt til í frumvarpinu að upptalning á helgidögunum verði felld úr lögunum og henni í staðinn komið fyrir í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá kirkjuþingi að frumvarpið hafi verið samþykkt samhljóða. Þó hafi verið settar fram tillögur um tæknileg útfærsluatriði eins og það er orðað. Þannig er gerð athugasemd við það að til standi að færa upptalningu á helgidögum þjóðkirkjunnar úr lögum um helgidagafrið og yfir í þjóðkirkjulögin. Er bent á í áliti Kirkjuþings að þjóðkirkjulögin fjalli eingöngu um mál sem falli undir ytri mál þjóðkirkjunnar.

„Samkvæmt gildandi þjóðkirkjulögum og mun eldri hefð fer þjóðkirkjan sjálf með innri málefni sín, þar með öll mál sem lúta að guðsþjónustuhaldi. Á því sviði skipa helgidagar þjóðkirkjunnar eðli máls samkvæmt mikilvægan sess. Um innri mál af þessu tagi er fjallað í samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar sem kirkjuþing samþykkir. Því er eðlilegt að um helgidaga þjóðkirkjunnar sé fjallað í þessum samþykktum, sbr. XV. kafla samþykktanna, en ekki í þjóðkirkjulögunum,“ segir enn fremur í álitinu.

Þannig myndu ákvæði um helgidaga þjóðkirkjunnar í þjóðkirkjulögum raska „stíl“ þeirra laga. „Það sem er þó verra er að nái sú breyting fram að ganga sem lögð er til í frumvarpinu er raskað þeim hefðbundna skilningi sem ríkt hefur um aðgreiningu innri og ytri mála þjóðkirkjunnar og þar með dregið úr sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hennar. Slíkt orkar mjög tvímælis miðað við þá stefnu sem ríkt hefur og talið er að haldið skuli fast við í framtíðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert