Hreiðar Már Sigurðsson var sakfelldur að hluta í innherja- og umboðssvikamáli tengdu félaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en um er að ræða síðasta hrunmálið sem var þingfest. Hreiðari var ekki gerð refsing í málinu. Hann var hann sakfelldur í þeim lið ákærunnar er varðar innherjasvik, en sýknaður af umboðssvikum.
Þá var Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, sýknuð í sínu máli og skal allur málskostnaður greiddur úr ríkissjóði. Hreiðar og Guðný voru hvorugt viðstödd dómsuppkvaðninguna.
Í málinu var Hreiðar sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar hann lét bankann veita einkahlutafélaginu Hreiðar Már Sigurðsson ehf. 574 milljóna króna eingreiðslulán í ágúst 2008. Var hann ákærður fyrir umboðssvik og innherjasvik.
Guðný var ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa veitt liðsinni í verki við að koma þeim fram einkum með fyrirmælum og samskiptum við lægra setta starfsmenn bankans síðari hluta ágústmánaðar 2008.