Komast ekki heim að lokinni sjúkrahúsdvöl

Írís Jónsdóttir og börn hennar; Garðar Máni, Hjörtur Elías og …
Írís Jónsdóttir og börn hennar; Garðar Máni, Hjörtur Elías og Sigurrós Amalía

Óvíst er hvort Hjörtur Elías Ágústsson, níu ára drengur sem verið hefur í strangri krabbameinsmeðferð í Svíþjóð, getur snúið til baka á heimili sitt í Árbæ að meðferðinni lokinni.

Leki varð á baðherbergi þar nýverið, í kjölfar þess myndaðist mygla og raki. Að sögn móður hans, Írisar Jónsdóttur, geta slíkar aðstæður verið lífshættulegar fyrir Hjört sem er með bælt ónæmiskerfi eftir að hafa undirgengist bæði beinmergskipti og geislameðferðir.

„Ég veit ekki hvað ég á að gera. Það þarf að rífa allt út úr baðherberginu og áætlaður kostnaður við það er 1,5 til 2 milljónir,“ segir Íris Hún segir að tjónið fáist ekki bætt frá tryggingafélaginu og hún hafi alls staðar rekist á vegg í leit sinni að láni fyrir nauðsynlegum framkvæmdum.

Lækningaferlið gengið vel

„Það er enga áhættu hægt að taka gagnvart heilsufari Hjartar,“ segir Íris sem dvalið hefur með Hirti og tveimur börnum sínum, 6 og 14 ára, á íbúðahóteli í Huddinge í Svíþjóð frá því í byrjun ágúst.

„Lækningaferli Hjartar hefur sem betur fer gengið vel eftir mergskiptin ef frá er talin sýking sem hann náði sér fljótt af. Með sama áframhaldi var raunhæft að við kæmumst heim í byrjun desember.

Ég get ekki hugsað það til enda ef fjölskyldan kemst ekki heim þegar Hjörtur útskrifast frá Karólínska sjúkrahúsinu. Við erum búin á því. Þetta hefur verið gríðarlegt álag á okkur öllum og það eru mikil þyngsli yfir fjölskyldunni. Við vorum farin að hlakka til að komast loksins heim þegar lekinn kom upp,“ segir Íris og bætir við að þetta sé annað tjónið sem fjölskyldan hafi orðið fyrir meðan á Svíþjóðardvölinni stóð.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert