Forsætisráðuneytið hafði í gærmorgun samband við Minjastofnun og óskaði eftir því að starfsmenn stofnunarinnar könnuðu ástand legsteins Jóns Magnússonar forsætisráðherra í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er legsteinninn mjög laskaður og nokkur ár frá því að áletruð marmaraplata framan á honum brotnaði og var fjarlægð. Platan er nú í geymslu í húsnæði kirkjugarðanna í Gufunesi. Brotnað hefur upp úr legsteininum þar sem platan var. Jón lést og var jarðsettur í garðinum sumarið 1926. Minningarmark um Þóru Jónsdóttur konu hans, sem lést 1947, stendur hins vegar heilt í grafreitnum.
Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri rannsókna og miðlunar, segir að málið sé á algjörum byrjunarreit hjá stofnuninni en orðið verði við beiðni forsætisráðuneytisins.
Gamli kirkjugarðurinn, Hólavallagarður eins og hann heitir formlega, nýtur aldursfriðunar samkvæmt lögum um menningarminjar. Agnes staðfesti að til umræðu hefði verið innan Minjastofnunar að friðlýsa garðinn sérstaklega en engar ákvarðanir um það hefðu verið teknar. Með sérstakri friðlýsingu skapast auknir möguleikar á vernd kirkjugarðsins og á viðgerðum minningarmarka innan hans, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.