Nýjar götur í miðborginni

Reykjastræti. Frágangi fyrsta hluta strætisins, frá Hafnarstræti að Geirsgötu, á …
Reykjastræti. Frágangi fyrsta hluta strætisins, frá Hafnarstræti að Geirsgötu, á að ljúka á þessu ári. Fjær á myndinni má sjá húsin sem eru að rísa á Hörpulóð. Þar mun strætið halda áfram. mbl.is/sisi

Það er fátítt að nýjar götur verði til í miðborg Reykjavíkur, elsta hluta borgarinnar. En nú eru að verða til tvær nýjar göngugötur á Hafnartorgi, milli Tryggvagötu og Geirsgötu. Þær heita Kolagata og Reykjastræti. Ef áætlanir ganga eftir getur almenningur gengið um göturnar upp úr næstu áramótum.

Kolagata liggur eftir endilöngu torginu, frá vestri til austurs. Hún nær frá Steinbryggju við Tollhúsið að Lækjargötu/Kalkofnsvegi, gegnt Arnarhóli. Tillaga að nafninu kemur frá nafnanefnd Reykjavíkur með tilvísun til þess að þarna hafi kolum verið skipað á land fyrr á árum. Þá stóð kolakraninn Hegri skammt þar norðan við.

Reykjastræti liggur frá Hafnarstræti alveg norður að Hörpu. Það liggur milli stórhýsa sem risið hafa á Hafnartorgi og einnig milli stórhýsa sem nú eru í byggingu á Hörpulóðinni. Eru það annars vegar íbúðarhús og Marriott Edition-hótel, fimm stjörnu glæsihótel, og hins vegar nýbygging Landsbankans, sem rísa mun við Kalkofnsveg á næstu árum, ef áætlanir ganga eftir.

Kolagata. Gatan er tilbúin að hluta til enda er nýbúið …
Kolagata. Gatan er tilbúin að hluta til enda er nýbúið að opna þarna stóra og glæsilega H&M-verslun. Seinni hluti götunnar, að Tollhúsinu, á að verða tilbúinn fljótlega eftir áramótin. mbl.is/sisi

Reykjastræti hafði verið notað sem vinnuheiti frá því að hönnun svæðisins hófst. Nafnanefnd Reykjavíkurborgar fannst þetta heiti ekki eiga við á þessum stað og lagði til að gatan yrði nefnd Tónagata, enda myndi hún liggja til tónlistarhússins Hörpu. Borgarráð ákvað eftir samráð við eigendur á svæðinu að gatan skyldi heita Reykjastræti. Nafnið vísar til heitis höfuðborgar Íslands, Reykjavík.

Byggingafyrirtækið ÞG verk hefur byggt upp stórhýsi á Hafnartorgi.

ÞG verk sér einnig um frágang á göngugötunum Kolagötu og Reykjastræti. Að sögn Jónasar Jónmundssonar, staðarstjóra ÞG verks, er gert ráð fyrir að hægt verði að ganga um göturnar upp úr áramótum en það verða ekki opnaðar verslanir þar fyrr en með vorinu að undanskilinni H&M-versluninni sem nýlega var opnuð.

Framkvæmdum við þann hluta Reykjastrætis, sem liggur um Hörpureit, mun væntanlega ljúka á næsta ári. Reitirnir verða tengdir með ljósastýrðri göngubraut yfir Geirsgötu.

Bryggjugata á Austurbakka

Þessar tvær nýju götur verða fyrst og fremst ætlaðar fyrir gangandi og hjólandi umferð. Á Hafnartorgi er fjöldi verslana og annarra fyrirtækja og samkvæmt lögreglusamþykkt sem auglýst var í september sl. verður vörulosun heimil frá kl. 07.00 til 11.00 virka daga.

Nafnanefndin lagði enn fremur til að gata á Austurbakka, vestan nýja hótelsins, fengi heitið Bryggjugata.

Loks lagði nefndin til að sá hluti Pósthússtrætis, sem liggur milli Tryggvagötu og Geirsgötu, yrði nefndur Steinbryggja.

Þar undir er hin gamla steinbryggja Reykjavíkur, sem kom í ljós á dögunum, þegar unnið var að endurbótum á Tryggvagötu. Steinbryggjan hafði ekki verið sýnileg áratugum saman og nýttu margir tækifærið til að berja augum þetta sögufræga mannvirki. Það mun væntanlega ekki verða sýnilegt nema að hluta næstu áratugina.

Tryggvagata. Framkvæmdir eru hafnar að nýju eftir tafir vegna Steinbryggjunnar. …
Tryggvagata. Framkvæmdir eru hafnar að nýju eftir tafir vegna Steinbryggjunnar. Efsti hluti bryggjunnar er horfinn undir yfirborðið að nýju. mbl.is/sisi

Á heimasíðu ÞG verks segir að framkvæmdirnar á Hafnartorgi séu hinar umfangsmestu sem ráðist hafi verið í á hafnarsvæði Reykjavíkur.

Hafnartogið muni tengja gamla miðbæinn við menningarbygginguna Hörpu og dragi þar með úr skiptingunni á milli hins gamla og nýja. Þar að auki mun verkefnið, sem samanstendur af sjö ólíkum byggingum, skapa almannarými sem ýti undir hreyfingu í gegnum svæðið frá aðliggjandi stöðum.

„Hafnartorgið mun mæta vaxandi þörf á húsnæðisrými í hinni vinsælu miðborg Reykjavíkur með verslunum, kaffihúsum, veitingastöðum, íbúðum og nútímalegum skrifstofum,“ segir á heimasíðunni.

Heildarstærð húsa þar er 23.350 fermetrar, fjöldi íbúða er 76, þjónusta og verslun verður á 8.000 fm og skrifstofuhúsnæði verður 6.400 fm.

Bílastæði neðanjarðar verða með tengingu við Hörpu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka