Baldur Arnarson
Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, segir samruna Icelandair og WOW air ekki hafa áhrif á starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli. Airport Associates þjónustar um 20 flugfélög á Keflavíkurflugvelli.
„Við þjónustum mörg félög en það er ekkert launungarmál að WOW air vegur þungt hjá okkur enda okkar stærsti viðskiptavinur. Ef rétt reynist að ætlunin sé að reka flugfélögin aðskilin þá kemur Airport Associates til með að halda áfram að afgreiða vélar og farþega WOW air með óbreyttum hætti þar sem samningur er í gildi, félaganna á milli,“ segir Sigþór Kristinn um framhaldið.
Starfsemi Airport Associates á Íslandi hófst árið 1997. Árið 2012 störfuðu um 100 manns yfir háannatíma hjá félaginu en þeir voru um 700 sl. sumar. Nú yfir vetrartímann starfa um 500 manns hjá fyrirtækinu, að því er fram kemur í umfjöllun um Airport Associates í Mmorugnblaðinu í dag.
Umsvif Airport Associates á Keflavíkurflugvelli hafa aukist með sívaxandi flugumferð til og frá landinu. Sigþór bendir jafnframt á að ásamt miklum vexti hjá WOW air hafi flugfélög á borð við easyJet, Wizz Air, Delta Airlines, American Airlines, Air Canada, Norwegian, British Airways og fleiri aukið mjög framboð flugferða til og frá Íslandi á síðustu árum.
Starfsemi Airport Associates felst m.a. í því að sjá um að innrita farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ásamt því að veita ýmsa aðra þjónustu, til dæmis á upplýsingaborðum.