Seðlabankinn hafi „beðið afhroð“

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs …
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs fyrirtækisins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Með þessum dómi lýkur endanlega tæplega sjö ára aðför Seðlabankans á hendur Samherja. Öllum fullyrðingum og sökunum Seðlabankans á hendur Samherja og starfsfólki okkar hefur verið hnekkt og bankinn beðið afhroð,“ skrifa þeir Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson, stjórnendur Samherja, í tölvupósti til starfsmanna fyrirtækisins.

Þeir þakka starfsmönnum fyrir að hafa aldrei misst trúna á sig og það að þeir hafi lagt sig fram við að vinna störf sín í samræmi við lög og reglur.

Tölvupósturinn var sendur starfsmönnum eftir að Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl í fyrra um að felld skyldi úr gildi 15 milljóna stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á fyrirtækið fyrir brot á gjaldeyrislögum.

Þeir segja þakklæti til starfsmanna vera þeim efst í huga eftir að dómur Hæstaréttar féll og að það hafi verið „þungbært að sitja undir ásökunum jafn valdamikillar stofnunar og Seðlabanka Íslands.“

„Við unnum ásamt ykkur heiðarlega og samviskusamlega að rekstri okkar fyrirtækis á tímum sem eiga sér ekki hliðstæðu á Íslandi. Samstaða ykkar hjálpar okkur að halda áfram þegar að okkur er sótt,“ segja þeir Þorsteinn Már og Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert