Síðustu leifar einkaréttar afnumdar

Breytingar eru fram undan í póstinum, verði frumvarpið samþykkt. Starfsmaður …
Breytingar eru fram undan í póstinum, verði frumvarpið samþykkt. Starfsmaður Íslandspósts brunar í hlað í höfuðstöðvum Morgunblaðsins í Hádegismóum. Enn berst mikið af bréfum og bögglum til blaðsins. mbl.is/Sigurður Bogi

Tímamót verða í póstþjónustu á Íslandi ef lagafrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um það efni verður að lögum. Samkvæmt frumvarpinu verða síðustu leifar einkaréttar ríkisins, póstburður lokaðra áritaðra bréfa sem eru 50 grömm eða léttari, afnumdar.

Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir því að ríkið tryggi aðgang að alþjónustu, skilgreindri lágmarksþjónustu óháð staðsetningu og á viðráðanlegu verði. Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um póstþjónustu frá árinu 2002. Verði frumvarpið samþykkt taka nýju lögin gildi 1. janúar 2020. Með því er verið að gera Íslandspósti, sem er opinbert hlutafélag, kleift að aðlaga sig breytingunni.

Breytingar á póstþjónustu

Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni fyrir frumvarpinu á þriðjudaginn að miklar breytingar hefðu orðið á eðli og rekstrarumhverfi póstþjónustu á síðustu árum. Með tilkomu nýrrar tækni og samskiptalausna hefði dregið verulega úr vægi hefðbundinnar póstþjónustu. Almennum bréfasendingum hefði til að mynda fækkað úr tæpum 60 milljónum árið 2008 í rúmar 20 milljónir 2017. Ráðherra sagði póstþjónustu þó áfram gegna mikilvægu hlutverki, ekki síst fyrir atvinnulífið, og að hún yrði áfram nauðsynlegur þáttur í netverslun. Markmið laganna væri að tryggja hagkvæma og áreiðanlega póstþjónustu fyrir allt landið, m.a. með því að tryggja aðgang að alþjónustu, lágmarksþjónustu sem skilgreind væri hverju sinni, og að stuðla að samkeppni á markaði. 

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstur póstþjónustu í atvinnuskyni verði ekki lengur leyfisskyld starfsemi hér á landi svo sem verið hefur heldur skráningarskyld. Lögaðilar innan EES-svæðisins eða í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fá því almenna heimild til að veita póstþjónustu hér á landi að uppfylltum skilyrðum ákvæða frumvarpsins. Öll aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa þegar afnumið einkarétt ríkis á póstþjónustu.

Í frumvarpinu er gerð grein fyrir alþjónustu en sú þjónusta er skilgreind sem tiltekin lágmarksþjónusta sem allir notendur póstþjónustu á landinu eiga rétt á, óháð staðsetningu og á viðráðanlegu verði. Alþjónusta nær bæði til póstsendinga innanlands og til annarra landa. Lagt er til að sama þjónusta skuli standa þeim til boða sem búa við sambærilegar aðstæður og að alþjónusta taki mið af tækni- og samfélagsþróun, hagrænum þáttum og þörfum notenda. Í alþjónustu felst aðgangur að afgreiðslustað og póstkössum en einnig skylda til að tryggja að póstkassar sem falla undir alþjónustu séu tæmdir a.m.k. tvisvar í viku eða í samræmi við fjölda dreifingardaga á viðkomandi svæði. Ekki er gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi við póstútburð í fyrstu frá því sem nú er og áfram miðað við útburð tvo virka daga í viku.

Aukagjald á pakka frá Kína

Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra hafi þrjár leiðir til að velja þjónustuveitanda sem skylt er að veita alþjónustu. Í fyrsta lagi með samningi við tiltekinn póstrekanda með almenna heimild, í öðru lagi með útnefningu póstrekanda eða í þriðja lagi með útboði. Sigurður Ingi sagði í framsögu sinni á Alþingi um þetta efni: „Það liggur fyrir að útboð er ekki vænlegt strax, verði frumvarpið að lögum, og líklegt þykir að samningaleiðin verði reynd áður en gripið verði til útnefningar. Í frumvarpinu er byggt á því að ákjósanlegast sé að alþjónusta verði einfaldlega veitt á markaðslegum forsendum.“

Í frumvarpinu er tekið sérstaklega á vanda sem Íslandspóstur hefur að undanförnu nefnt sem ástæðu versnandi rekstrarstöðu sinnar. Fyrirtækið hefur í reynd þurft að niðurgreiða sívaxandi póstsendingar með ýmiss konar varningi frá Kína sem neytendur kaupa á netinu. Vegna samnings innan vébanda Alþjóðapóstssambandsins, sem Ísland er aðili að, ber íslenskum stjórnvöldum að niðurgreiða póstsendingar sem berast frá þróunarlöndum. Greint hefur verið frá því að tap Íslandspósts vegna þessa nemi um 475 milljónum króna á ári. Í frumvarpinu segir að gjaldskrár fyrir alþjónustu, þar á meðal gjaldskrár vegna pakkasendinga til landsins, skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þannig mun alþjónustuveitanda vera heimilt að leggja gjald á hvern pakka innan 20 kg sem kemur til landsins. Neytandinn mun þá greiða gjaldið en ekki íslenska ríkið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert