„Málið er til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is vegna fréttar Morgunblaðsins í dag þess efnis að breyttar mælingar á útblæstri bifreiða séu að valda umtalsverðri hækkun á verði nýrra bifreiða.
Fram kemur enn fremur í fréttinni að verðhækkunin muni að óbreyttu hafa í för með sér aukna verðbólgu með tilheyrandi hækkun á höfuðstól verðtryggðra lána að mati hagfræðings sem Bílgreinasambandið fékk til þess að reikna út verðbólguáhrifin ef ekki verði brugðist við umræddum breytingum samhliða veikara gengi.
Málið var til umfjöllunar í fjölmiðlum fyrr á árinu og sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þá að skoða þyrfti hvort hægt yrði að grípa til einhvers konar mótvægisaðgerða til þess að stemma stigu við mögulegri hækkun bifreiðaverðs í kjölfar breyttra staðla Evrópusambandsins um mælingar á útblæstri.
Útreikningarnir fyrir Bílgreinasambandið koma fram í viðbótarumsögn sambandsins til efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um bifreiðagjald og lögum um virðisaukaskatt. Málið var kallað aftur inn til nefndarinnar í gær á milli annarrar og þriðju umræðu um það og þá óskað eftir viðbótarumsögnum.
„Við óskuðum eftir því að taka frumvarpið aftur inn í nefndina til þess að skoða þetta mál alveg sérstaklega. Þetta er gild athugasemd og síðan er bara spurningin hvort það er hægt að bregðast við,“ segir Óli Björn. Málið sé unnið í samstarfi við fjármálaráðuneytið og segist hann eiga von á niðurstöðu á fundi nefndarinnar næsta þriðjudag.