„Eitt slys á barni eða ungmenni á ári er of mikið, um það voru allir sammála á málstofu um atvinnuþátttöku barna. Og það var sláandi að sjá að einungis 17 sveitarfélög af 73 sem bjóða upp á vinnuskóla hafi gert áhættumat til að tryggja börnum og unglingum öryggi og heilbrigði á vinnustað.“
Þetta segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, í Morgunblaðinu í dag um ráðstefnu sem haldin var í gær, en þar kom fram að 410 börn og ungmenni hafi slasast á vinnumarkaði árið 2016. Af þeim voru 15 börn yngri en 14 ára.
„Rannsóknir hafa sýnt að það er fylgni milli vinnu með námi og stoðkerfisvanda eða kvíða og mikil atvinnuþátttaka barna á Íslandi er sláandi. Það voru allir sammála um nauðsyn þess að auka fræðslu um vinnuverndarmál og að vinnuskólinn væri kjörinn til þess ásamt því að kynna börnum réttindi og skyldur á vinnumarkaði,“ segir Salvör og bætir við að mikil vinna barna og unglinga með námi sé eflaust í menningu okkar. Nú sé kominn tími til þess að hætta að hugsa hvernig þetta var áður fyrr og hugsa þess í stað hlutina upp á nýtt.
„Það er nauðsynlegt að fyrsta reynsla barna af vinnumarkaði sé jákvæð og þar geta sveitarfélögin komið sterkt inn með fræðslu og góðan aðbúnað,“ segir Salvör, en hún vill aukna umræðu um þetta mál.
Frétt á vef umboðsmanns barna um fundinn í gær