„Friðlýsingarhjólin eru aftur farin að snúast“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir friðlýsingarhjólin vera farin …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir friðlýsingarhjólin vera farin að snúast á nýjan leik. mbl.is/Hari

„Miðhálendið er höfuðborg náttúrunnar á Íslandi,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra í ávarpi sínu á Umhverfisþingi sem haldið er á Grand hótel í dag. Þjóðgarðurinn, sem er skrifaður inn í sáttmála ríkisstjórnarinnar yrði langstærsta framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum hingað til.

Metaðsókn er á umhverfisþingið sem er það níunda í röðinnim en að þessu sinni er fjallað um nýja nálgun í náttúruvernd og stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

„En hver á miðhálendið? Er það ríkið? Eru það sveitarfélög? Eru það einstakir landeigendur? Er það þjóðin?“ spurði ráðherra og sagði alla sennilega geta gert tilkall til eignarhalds á þessu svæði. „Og, það er einmitt fegurðin í þessu – það er eins og Þingvellir – í huga okkar sameign. Það eru svo margir sem nýta og njóta hálendisins í dag sem vinna gott starf. Rödd þessa fólks er mikilvæg við stofnun þjóðgarðs og þegar kemur að rekstri hans.“

Því sé samráð og samstarf við sveitarfélög, útivistarfélög, nytjaréttarhafa, landeigendur, náttúruverndarsamtök, bændur, ferðaþjónustuaðila og aðra þá sem nýta og njóta hálendisins, mikilvægur þáttur í þessu verkefni.

Unnið sé að ýmsum samstarfsverkefnum sem lúta að nýrri hugsun og nýrri nálgun í náttúruvernd og á friðlýsingu svæða, sem muni skila mikilvægum upplýsingum og tillögum sem geti haft gríðarlega jákvæð áhrif á náttúruvernd í landinu.

Sagði ráðherra því eðlilegt að spyrja hvernig átak í friðlýsingum gangi.

„Því er til að svara að nú þegar hafa friðlýsingarskilmálar fyrir fimm svæði í verndarflokki rammaáætlunar verið sendir út til kynningar og ekki er langt að bíða þess að fleiri bætist í hópinn,“ sagði Guðmundur Ingi og kvaðst telja að unnt yrði að ljúka þeim friðlýsingum fyrir mitt næsta ár.

Þá sé friðlýsing tveggja svæða sem séu viðkvæm gagnvart ágangi ferðamanna í pípunum og fleiri til skoðunar. „Þessi tvö svæði eru Reykjadalur í Ölfusi og Gjáin í Þjórsárdal og hafa fundir verið haldnir fundir með heimamönnum og stutt í að auglýsa megi áform um friðlýsingu þessara svæða,“ bætti hann við.

Aukinheldur vinni Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið nú að óskum sveitarfélaga um friðlýsingar sem ekki falli endilega undir ofangreinda flokka. Nýtt dæmi um slíkt sé friðlýsingaráform Akureyjar á Kollafirði sem nýlega voru send til kynningar.

„Friðlýsingarhjólin eru aftur farin að snúast,“ sagði ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka