„Það er verið að byrja að reyna að toga skipið á flot,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í samtali við mbl.is. Til stendur að draga flutningaskipið Fjordvik, sem strandaði í Helguvíkurhöfn í vikunni, til Keflavíkur í kvöld.
Tveir dráttarbátar Faxaflóahafna eru komnir á staðinn að sögn Kjartans og allt til reiðu að draga skipið af stað. Beðið sé einungis eftir því að aðstæður verði hentugar hvað sjávarföll varðar en háflóð sé að skella á. Unnið hefur verið að því að létta skipið í dag.
Kjartan segir fulltrúa útgerðar skipsins, SMT Shipping, stjórni aðgerðum á staðnum. Spurður hvenær nákvæmlega verði farið í að draga skipið til Keflavíkur segist hann reikna með það verði á næsta klukkutímanum án þess að það liggi endanlega fyrir.