„Við erum að byrja að skoða þetta,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, spurður um mál ferðamanns sem spólaði um á smájeppa og spændi upp mosa. Myndband af ofsaakstrinum rataði bæði á Instagram og Youtube.
Ólafur segir að á mánudag muni málið fara formlega til lögreglunnar, en Umhverfisstofnun hefur einnig verið í sambandi við starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem af myndbandinu að dæma hafi ferðamennirnir líklega verið á eða í nálægð við Breiðamerkursand. „Við reynum að koma þessu eins hratt og mögulegt er til lögreglu svo hægt sé að ná í þessa menn ef þeir eru enn þá á landinu.“
Þrátt fyrir að Umhverfisstofnun þurfi að staðfesta hvort um meintan utanvegaakstur sé að ræða þá er málið klárt lögreglumál að sögn Ólafs. „Okkar hlutverk er kannski meira að staðfesta að þarna sé að líkindum um utanvegaakstur að ræða,“ segir Ólafur og bætir við að þótt það sé ekki hægt að fullyrða endanlega að í málinu sé um akstur utan vega að ræða, þá taki umrætt myndband af mestan vafa um það.
„Þetta er allmikið tjón á grónu svæði. Þarna er ekki mikill gróður annar en mosi en mosi er hægvaxta planta. Það tekur mosa langan tíma að jafna sig eftir svona meðferð. Við höfum séð á kaldari svæðum, eins og hálendissvæðum, að það getur tekið mosann tugi ára að jafna sig,“ segir Ólafur en bætir við að mögulegt sé að fara í aðgerðir til að græða upp mosann, þó að slíkt hafi ekki komið til tals enn þá.
Umræddur smájeppi var leigður hjá bílaleigunni City Car Rental en í samtali við Vísi sagði Sigurður Friðriksson, eigandi bílaleigunnar, þetta vera til mikillar niðurlægingar og að bílaleigan reyndi að gera allt sem hún gæti til þess að koma í veg fyrir að fólk keyrði utan vegar.