Samúð Bjarna hjá Samherjamönnum

Bjarni Benediktsson í ræðustól Alþingis.
Bjarni Benediktsson í ræðustól Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alvarlegt mál þegar farið er í húsleitir, menn kærðir og mál eru í rannsókn í lengri tíma og þegar upp er staðið þykir ekki hafa verið um brot að ræða,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, inntur um viðbrögð við niðurstöðu Hæstaréttar í máli Samherja gegn Seðlabanka Íslands sem féll Samherja í vil. Í málinu komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að felld skyldi úr gildi 15 milljóna króna stjórnvaldssekt sem bankinn lagði á Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum.

Árið 2012 stóð Seðlabankinn fyrir húsleitum á starfsstöðvum fyrirtækisins og var málinu í tvígang vísað til sérstaks saksóknara. M.a. voru yfirmenn fyrirtækisins kærðir, en saksóknari felldi niður sakamál vegna meintra brota. Síðar var umrædd sekt lögð á fyrirtækið og var hún felld niður af Héraðsdómi Reykjavíkur. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu síðan á fimmtudag.

Hafa kallað eftir fangelsisvist

Meðal þess sem fram kom í niðurstöðu héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti var að ekkert hefði komið fram um að ákvörðun Seðlabankans um að hefja meðferð málsins að nýju hefði byggt á nýjum gögnum.

Samherjamenn hafa í kjölfar dómsniðurstöðunnar kallað eftir afsögn Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, vegna málsins. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur sagt að háttsemi seðlabankastjóra sé refsiverð og að nokkuð ljóst sé að hann sé á leið í fangelsi.

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að niðurstaðan væri alvarlegur áfellisdómur fyrir stjórnsýslu Seðlabankans. Þó væri rétt og skynsamlegt að stjórnendum bankans yrði gefið tækifæri til að bregðast við niðurstöðunni og skýra sína hlið málsins.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur kallað eftir afsögn seðlabankastjóra …
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur kallað eftir afsögn seðlabankastjóra eftir niðurstöðu Hæstaréttar.

Þrískipting ríkisvaldsins hafi virkað 

„Í þessu máli var farið út í stjórnsýslusektir og það reyndist ekki lagagrundvöllur fyrir því. Það má segja að þetta sé dæmi um mál þar sem þrískipting ríkisvaldsins virkar,“ segir Bjarni. „Við erum með sjálfstæða dómstóla þar sem menn geta látið reyna á sína stöðu og þarna fékk framkvæmdavaldið ekki að fara sínu fram heldur hlutlausir dómstólar sem meta stöðuna,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

„Það breytir því ekki að það getur verið mjög íþyngjandi að vera dreginn í gegnum þetta ferli. Ég vænti þess að í stjórn bankans verði það rætt hvað fór úrskeiðis, hvers vegna og hvernig megi læra af því,“ segir hann.

„Í svona málum, þegar hlutlausir dómstólar komast að því að það hafi ekki verið tilefni og að menn séu saklausir af því sem borið er á það, þá er mín samúð hjá þeim,“ bætir Bjarni við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert