Miðað við þróun heimsmarkaðsverðs á olíu og gengisþróun ætti að vera svigrúm til að lækka útsöluverð á bensíni um 10-11 krónur. Þetta kemur fram í útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) fyrir Morgunblaðið.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir útsöluverðið lítið hafa breyst í mánuð. Það sé greinilegt að ekkert olíufélaganna nýti tækifærið til að lækka verðið. Þvert á móti dansi þau á sömu línu. Það vitni um fákeppni á markaði. Algengt útsöluverð á bensínlítra var um 231 króna í gær.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir lækkun olíuverðs geta dregið úr verðbólguþrýstingi á Íslandi. Hagstofan muni í næstu viku taka olíuverðið inn í verðbólgumælingu sína.
Spurður hvort þetta og hægari hækkun fasteignaverðs geti vegið þungt í verðbólgumælingum segir hann veikingu krónu vega þyngra.
Áhrifin af veikingunni eigi eftir að koma fram í verðlagi. Krónan hafi enda veikst um 10% í haust, að því er fram kemur í umfjöllun um þróun olíuverðs í Morgunblaðinu í dag.