Árbæjarskóli bar sigur úr býtum í Skrekki, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík, en úrslitin fóru fram í Borgarleikhúsinu í kvöld. Í öðru sæti lenti Langholtsskóli og í því þriðja varð Seljaskóli.
Boðskapur atriðis Árbæjarskóla var samvinna.
Þetta er annað árið í röð sem Árbæjarskóli vinnur Skrekk en úrslitin voru sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Þetta er einnig annað árið í röð sem nemendur í Langholtsskóla lenda í öðru sæti.
Um 200 nemendur frá átta skólum tóku þátt í úrslitunum í kvöld.
Öll atriðin í Skrekki eru frumsamin og flutt af unglingum í skólunum. Jafnframt sinna þau öllum helstu verkum við uppfærsluna til að mynda gerð sviðsmyndar, sminki, hárgreiðslu, lýsingu og hljóðvinnslu.