Kjaraviðræður SA og aðildarfélaga ASÍ eru komnar á fullt skrið. Iðnaðarmenn ganga sameinaðir til samninga og leggja lokahönd á kröfugerð gagnvart SA í vikunni að sögn Hilmars Harðarsonar, formanns Samiðnar.
Í umfjöllun um kjaramálin í Morgunblaðinu í dag segir hann að iðnaðarmenn muni ekki setja fram tölur heldur leggja áherslu á kaupmáttaraukningu og að menntun verði metin til launa, auk þess sem húsnæðismálin muni vega þungt en þau komi illa niður á iðnaðarmönnum sem og öðrum launþegum.
SA og Starfsgreinasambandið hittust á samningafundi í vikunni sem leið og munu funda aftur í vikunni. Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, er bjartsýnn og segist aldrei áður hafa upplifað jafn mikinn vilja til þess að klára samingaviðræður og nú en kjarasamningar renna út um áramótin.