Fíknifaraldur allt árið

Rót vandans felst í samfélagsgerðinni, segir Vigfús Bjarni Albertsson um …
Rót vandans felst í samfélagsgerðinni, segir Vigfús Bjarni Albertsson um fíknivanda og unga fólkið. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það má segja að allt þetta ár hafi fíknisjúkdómar verið faraldur á Íslandi. Tugir hafa látist og margir fallið fyrir eigin hendi. Aðstandendur, eftir atvikum foreldrar, systkini og börn, þurfa mikinn stuðning og hjálp; því oft er sektarkenndin mikil þó að hún sé ekki rökrétt.“

Þetta segir Vigfús Bjarni Albertsson prestur í Morgunblaðinu í dag. Í starfi sínu segist hann að undanförnu hafa kynnst ótrúlegum frásögnum af skefjalausri hörku sem handrukkarar beita og svífast einkis. Í höndum ofbeldisfólks má fólk sem er veikt af fíkn sín næsta lítils.

„Nýlega las ég frásögn manns sem lýsti því þegar allir fingur hans voru brotnir; einn af öðrum. Þetta stóð í kveðjubréfinu, en sá sem það skrifaði var maður í vímuefnanotkun og með hugsuninni rökstuddi hann sig út úr lífinu. Sú niðurstaða er auðvitað röng, en við verðum samt að hafa í huga að sá sem lést var veikur og þegar andlát ber að höndum megum við aldrei gera greinarmun á líkamlegum og andlegum veikindum,“ segir sr. Vigfús Bjarni sem hefur jarðsungið fólk sem látist hefur af afleiðingum vímuefnanotkunar, auk þess að veita syrgjandi ættmennum stuðning og sáluhjálp.

Setja má í beint samhengi fíknivána og vanda ungra manna, sem ófáir veikjast andlega og fara á örorkubætur. Staða þeirra var rædd á Alþingi í sl. viku. „Í samtölum mínum við ungt fólk kemur oft fram leit eftir tilgangi og viðurkenningu. Raunar á þetta við um fólk á öllum aldri, hvarvetna á Vesturlöndum. Rót þessa vanda hlýtur að liggja í samfélagsgerðinni,“ segir sr. Vigfús Bjarni í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka