Þeir Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson fóru aðra leið á topp fjallsins Pumori en venjulegt var og vissu ekki til þess að aðrir hefðu farið sömu leið. Þetta staðfestir Jón Geirsson, sem var með þeim Kristni og Þorsteini en þurfti frá að hverfa vegna rifbeinsbrots, í samtali við Kastljós á RÚV.
„Það voru leiðangrar sem voru byrjaðir að fara leiðina sem við ætluðum upp þannig að við breyttum áætlun okkar og ákváðum að leggja upp eftir nýrri leið á vesturvegg fjallsins,“ segir Jón. Hann og Kristinn hafi byrjað á að finna leið upp að fjallshlíðinni. „Við lentum í smá vandræðum, í uppgöngunni þurftum við að koma niður á annan stað á leiðinni til baka. Þar vorum við að síga niður og ég datt ofan í sprungu.
Jón sneri niður og fór til læknis í dalnum og á endanum ákvað hann að snúa aftur til Frakklands, þar sem hann var og er búsettur.
Fjórði maðurinn sem var með þeim í för, Stephen Aistrope frá Skotlandi, fór ekki með Þorsteini og Kristni á toppinn vegna veikinda. Hann sá til þeirra komast yfir brattasta kaflann á leiðinni en síðan ekki meir. Til þeirra sást skammt frá toppnum og má því gera ráð fyrir að þeir hafi hrapað á leiðinni niður.
„Okkar áætlun var að fara sömu leið niður, síga niður 900 metra langa ísbrekku,“ segir Jón. Það hafi einnig verið inni í myndinni að fara klassísku leiðina til baka, sem þykir auðveldari. „En ef maður er búinn að fara aðra leið upp og þekkir ekki niðurleiðina þá getur það verið flókið mál líka.“
Ekki var vitað um örlög þeirra Kristins og Þorsteins fyrr en bandarískur fjallgöngumaður gekk fram á lík þeirra á dögunum og fann skilríki þeirra. Jón segir það bæði létti og erfitt á sama tíma. Hann hafi misst frábæra félaga í fjallinu í Nepal og málið hafi haft mikil áhrif á hann. „Ég var í langan tíma að samþykkja þetta.“
Anna Svavarsdóttir var fyrst íslenskra kvenna til að klífa yfir 8.000 metra hæð, en hún reyndi við topp Pumori árið 2001. Hún var einnig gestur í Kastljósi og telur sig heppna að hafa lifað ferðina af.
Mikil snjókoma varð þess völd að hópurinn þurfti að bíða við fjallsræturnar í heila viku. Snjókomunni fylgdi svo fjöldi snjóflóða sem urðu á endanum til þess að þau ákváðu að snúa við.
„Okkur fannst þetta ekki rétt og tókum fund um það. Auðvitað langaði okkur að halda áfram en fannst aðstæðurnar vera þannig að við ættum að fara. Síðan kemur snjóflóð á búðir í miðri hlíð,“ segir Anna. Fimm Spánverjar, sem höfðu verið í samfloti með hópnum sem Anna var í, létust í flóðinu.