„Gjörsamlega allt brunnið í kringum veitingastaðinn“

Gríðarleg eyðilegging hefur orðið af völdum gróðureldanna í Kaliforníu.
Gríðarleg eyðilegging hefur orðið af völdum gróðureldanna í Kaliforníu. AFP

Fjöldi látinna í skógareldunum sem hafa geisað í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum undanfarna daga er á þriðja tug. 250 þúsund manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín og mörg þúsund heimili og fyrirtæki hafa orðið skógareldum að bráð.

Stærsti skógareldurinn logar við rætur Sierra Nevada-fjallanna norður af Sacramento, en sá eldur hefur brennt 6.700 heimili og fyrirtæki til grunna í bænum Paradise. Þar hafa 23 dauðsföll verið staðfest, en íbúar bæjarins eru aðeins 27 þúsund talsins.

Anton Axelsson býr skammt frá Paradise í bænum Chico ásamt eiginkonu sinni og sex börnum, en hjónin opnuðu morgun- og hádegisverðarstaðinn Old Barn Kitchen í Paradise fyrir tveimur mánuðum. Þegar blaðamaður náði tali af honum í gærkvöldi hafði hann nýlega fengið upplýsingar um að staðurinn hefði sloppið við brunann. „Við heyrum að 90 prósent bæjarins séu brunnin til grunna,“ segir Anton. „Eins og staðan er akkúrat núna þá stendur staðurinn. Við vorum að fá mjög góðar fréttir, en það er gjörsamlega allt brunnið í kringum hann. Það er eins og að guðirnir hafi verið að líta eftir veitingastaðnum,“ segir Anton.

Anton Axelsson fyrir miðju ásamt eiginkonu sinni Chrystal Axelsson og …
Anton Axelsson fyrir miðju ásamt eiginkonu sinni Chrystal Axelsson og Ramon Silva. Þau reka veitingastað í bænum Paradise. Ljósmynd/Aðsend

„Ég vaknaði á fimmtudagsmorgun og var að sækja kaffi fyrir konuna mína áður en ég færi upp eftir. Á leiðinni sé ég svakalegan reykmökk, en hann var dálítið í burtu frá bænum svo ég spáði ekki mikið í það þótt ég hefði einhverjar áhyggjur,“ segir Anton. Hann skilaði kaffinu heim til konunnar í flýti og ók af stað til Paradise á veitingahúsið. „Á leiðinni upp eftir sé ég að eldurinn er búinn að færast töluvert nær Paradise. Lögreglubílar, slökkviliðisbílar og sjúkrabílar koma á móti mér og allt vinstra megin við mig er orðið að báli. Það var eins og að himinninn breyttist frá degi í nótt og aska kom yfir bílinn. Fólk var í örvæntingu að reyna að komast úr bænum,“ segir Anton en hann lokaði staðnum og tók allt starfsfólkið upp í bíl og brunaði út úr Paradise. „Þegar við leggjum í hann eru eldarnir komnir alveg upp að bænum. Það var allt í blossa og það ríkti mikil ringulreið, en við náðum að komast í burtu,“ segir hann. „Eldurinn breiðir úr sér eins og ég veit ekki hvað. Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir hann.

„Það er sennilega mikið átak fram undan. Það mun taka ár eða tvö að endurbyggja bæinn. Þetta er svakalegt áfall bæði fyrir veitingahúsið okkar og fyrir bæjarfélagið allt. Við vitum ekki hvort við náum að opna á næstunni. Allar síma- og rafmagnslínur eru ónýtar og við vitum ekki hvort við náum að opna eða hvað. Fjölskyldan hefur sett upp GoFundMe-síðu fyrir okkur til að hjálpa okkur í gegnum þetta og það er farin af stað söfnun fyrir bæjarfélagið til að hjálpa við endurbygginguna.“

Anton segir að fjölskyldan hafi þurft að yfirgefa heimilið á fimmtudag, en fengið að snúa aftur til baka síðar um nóttina. „Eldarnir komu ekki alveg niður að Chico, slökkviliðið náði að stöðva þá. En það er rosalega mikill reykur og þetta er alveg hræðilegt,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert