Flutningaskipið Fjordvik kom inn í Hafnarfjarðarhöfn í hádeginu en það var dregið þangað af tveimur dráttarbátum frá Keflavík klukkan hálfníu í morgun.
Skipið strandaði við hafnargarðinn í Helguvík aðfaranótt 4. nóvember. Það var dregið til Keflavíkur af strandstað á föstudaginn.
Skipið er sigið að aftan og stefnt er að því að þyngja það að framan í Hafnarfirði. Reynt verður að laga Fjordvik þannig að hægt verði að sigla því frá Íslandi.
Áður hafði verið greint frá því að hvort sem gert yrði við skipið eða því fargað þá þurfi það að fara yfir hafið vegna þess að ekki sé aðstaða til að farga svo stóru skipi hér.