Í aðgerðir vegna kólnandi hagkerfis

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. Ljósmynd/Aðsend

„Verðbólgan lætur aðeins á sér kræla, hagvöxtur er aðeins minni en gert er ráð fyrir og einkaneysla er að dragast saman. Þetta hefur allt áhrif á stærðir í frumvarpinu,“ segir Willum Þór Þórsson, formaður fjármálanefndar Alþingis, en meirihluti nefndarinnar ætlar að bregðast við kólnandi hagkerfi með aðhaldsaðgerðum sem kynntar verða fyrir aðra umræðu fjárlaga á fimmtudag. RÚV greindi fyrst frá.

Hægt verður á ýmsum framkvæmdum, svo sem við Landspítala, Alþingishúsið og Stjórnarráðið, auk þess sem framlög til öryrkja verða aukin um 2,9 milljarða í stað þeirra 4 milljarða sem gert hafði verið ráð fyrir.

Willum segir efnahagshorfur frá forsendum frumvarpsins hafa breyst með nýrri hagspá Hagstofu Íslands frá byrjun nóvember og að það hafi áhrif á frumvarpið. Þá segir hann stóran lið í frumvarpinu, launa- og verðlagsbætur, hækka og því þurfi að mæta með ýmiss konar ráðstöfunum.

Upphæðirnar vegna framkvæmdanna segir hann stórar en að líklegt sé að stjórnarandstaðan muni setja sig upp á móti ætlaðri skerðingu til öryrkja. „Í frumvarpinu og í ríkisfjármálaáætlun er lagt upp með fjóra milljarða til öryrkja,“ segir Willum. Hann segir starfshóp að störfum sem eigi að útfæra tillögur um nýtingu fjármagnsins, en að fyrir liggi að ekki verði hægt að nýta alla fjóra milljarðana á næsta ári.

„Þó að tillögurnar yrðu tilbúnar í janúar eða febrúar sjá menn að það yrði ekki hægt að nýta alla heimildina á árinu, svo að við hliðrum til. Í staðinn fyrir að auka framlög um fjóra milljarða eru þau aukin um 2,9 milljarða. Það er ekki verið að taka neitt af, því afgangurinn hliðrast til 2020. Þetta er naglfast í ríkisfjármálaáætlun og þetta fjármagn er eyrnamerkt þessu verkefni,“ segir Willum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert