Skiptar skoðanir um eitt leyfisbréf

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara.

Hugmyndir eru til skoðunar í menntamálaráðuneytinu um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennslu í framhaldsskólum, grunnskólum og leikskólum í stað þess að gefið sé út eitt leyfisbréf fyrir hvert skólastig líkt og staðan er í dag.

Haldnir hafa verið samráðsfundir um þessar hugmyndir undanfarið en ekki er hins vegar sátt um þær. Þannig eru forsvarsmenn grunnskólakennara og leikskólakennara hlynntir þessum hugmyndum en forsvarsmenn framhaldsskólakennara ekki.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir í samtali við mbl.is félagið hafa kallað eftir því að hrint yrði í framkvæmd ákvæði laga um að kennurum verði veitt leyfisbréf til kennslu á aðliggjandi skólastigi til viðbótar við grunnleyfisbréf að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Umræddar hugmyndir gangi hins vegar allt of langt.

„Framhaldsskólaleyfisbréfin eru skilyrt við ákveðna kennslugrein og ef það á að opna þetta þá ertu kominn með hóp af kennurum sem hafa mjög mismunandi bakgrunnsmenntun en hafa lagalega sömu heimildir til að kenna nemendum frá tveggja og upp í 20 ára.“

Tekur hún dæmi um að kennara vanti til að kenna eðlisfræði í framhaldsskóla. Tveir sækja um, eðlisfræðingur án kennsluréttinda og grunnskólakennari með íslensku sem sérgrein. Við þær aðstæður yrði að ráða grunnskólakennarann ef eitt leyfisbréf væri gefið út.

Félagsfundur fer fram á vegum Félags framhaldsskólakennara á mánudaginn um málið.

Fjallað er um málið á fréttavef Ríkisútvarpsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert