„Við höfðum trú á því að við gætum endað í sæti en þetta var smá sjokk,“ segir Kara Sól Einarsdóttir, nemandi í Árbæjarskóla. Hún var hluti af sigurliði Árbæjarskóla í Skrekk í gærkvöldi.
Úrslitin fóru fram í Borgarleikhúsinu. Í öðru sæti lenti Langholtsskóli og í því þriðja varð Seljaskóli. Þetta er í annað skiptið í röð sem Árbæjarskóli vinnur Skrekk og í þriðja skiptið alls. Langholtsskóli varð einnig í öðru sæti í fyrra.
Kara segir að það hafi að einhverju leyti verið erfitt að fylgja eftir velgengninni frá því í fyrra. Þrátt fyrir þann sigur hafi ekki verið nein pressa frá öðrum nemendum skólans.
„Við fundum ekki fyrir pressu fyrr en við vorum komin á staðinn. Stuðningshópurinn okkar var sá besti á svæðinu og við hugsuðum að við yrðum að standa okkur vel,“ segir Kara.
Boðskapur atriðis Árbæjarskóla var samvinna en Kara segir að í byrjun atriðisins hafi tveir hópar verið að keppa sín á milli. „Í lokin ákváðu allir að vinna saman og þá gekk allt mun betur.“
Kara segir að það hafi verið rosalega stressandi og spennandi að stíga á svið fyrir framan fullan sal í Borgarleikhúsinu. „Þetta er rosalega stressandi en þegar maður er kominn á sviðið er þetta stærsta upplifun sem maður getur lent í.“
Spurð um framtíðina segir Kara að hún stefni á að leggja leiklistina fyrir sig. „Margir í hópnum verða líklega leikarar eða söngvarar í framtíðinni.“