Vilja hafna þriðja orkupakka ESB

Kjördæmisþing framsóknarmanna hefur sent frá sér ályktun.
Kjördæmisþing framsóknarmanna hefur sent frá sér ályktun. mbl.is/Styrmir Kári

Kjördæmisþing framsóknarmanna í Reykjavík telur að ástæða sé til að að hafna þriðja orkupakka ESB og að leita þurfi allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Þetta kemur fram í ályktun kjördæmisþingsins.

„Kjördæmisþingið telur að margt hafi áunnist með EES-samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu,“ segir í ályktuninni.

Þar er einnig fagnað „farsælu ríkisstjórnarsamstarfi“ Framsóknarflokksins, auk þess sem bent er á að réttlæti sé fólgið í banni við verðtryggðum húsnæðislánum. Réttlæti sé einnig fólgið í lægri vöxtum með tilkomu samfélagsbanka, að húsnæðisliður fari úr vísitölu, svissnesku leiðinni í húsnæðiskaupum, uppskurði lífeyrissjóðakerfisins og lýðræðisvæðingu. Einnig er nefnt að réttur neytenda skuli varinn gegn „ofurvaldi fjármálafyrirtækja“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert