Voru um kílómetra frá fundarstaðnum

Leifur Örn Svavarsson á Everest. „Þetta er veggbrött leið sem …
Leifur Örn Svavarsson á Everest. „Þetta er veggbrött leið sem þeir fara og á fjallamennskumælikvarða erfið en mjög falleg,“ segir Leifur Örn um þá leið sem þeir Þorsteinn og Kristinn fóru á Pumori. Mynd fengin af ferðabloggsíðu hans.

„Ég man vel eftir þeim [Þorsteini Guðjónssyni og Kristni Rúnarssyni],“ segir Leifur Örn Svavarsson, leiðsögumaður hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. „Þeir voru fjórum árum eldri en ég og ég man að mér fannst þeir svo gamlir,“ segir hann og kveðst hafa litið mikið upp til þessara félaga sinna í Íslenska alpaklúbbinum. „Ég fylgdist með leiðangrinum og heyrði í Jóni Geirssyni bæði fyrir og á eftir.“

Mbl.is greindi frá því á sunnudag að lík tveggja ís­lenskra fjall­göngugarpa, þeirra Krist­ins og Þor­steins, hefðu ný­verið fund­ist í Nepal, 30 árum eft­ir að þeir fór­ust á niður­leið af fjall­inu Pu­mori í októ­ber árið 1988, 27 ára að aldri. Var það banda­rísk­ur fjall­göngumaður sem rakst á lík þeirra og til­kynnti fund­inn.

Leifur Örn var að koma heim frá Nepal á sunnudag eftir að hafa farið í tvær ferðir upp í grunnbúðir Everest með hópa á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Leiðin sem hóparnir fóru upp Khumbu-skriðjökulinn er sú sama og gengin er á Pumori, en síðan skilur leiðir að grunnbúðum Everest og í grunnbúðir Pumori.

Fengu skilning á erfiðleikunum sem þeim mættu

„Við gengum upp á Kala Patthar og horfðum þá beint niður í grunnbúðir Pumori,“ segir Leifur Örn. „Hæðin sem við gengum á var í raun ekki í nema um kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem þar sem þeir finnast.“

Hann segist hafa rætt leiðangur þeirra Þorsteins og Kristins á Pumori við báða hópana. „Þó að þessi ferð upp í grunnbúðir sé bara brot af þeim erfiðleikum sem blasir við í þeirri fjallgöngu þá veitir hún ágætissýn á erfiðleikana,“ segir hann. „Dvölin í grunnbúðum og koman þangað er flestum erfið,“ útskýrir hann við og vísar þar til viðverunnar í yfir 5.000 metra hæð og þess að fara á fætur í miklum kulda. „Ég held að allir sem voru í ferðinni hafi haft góðan skilning á erfiðleikunum við að vera komnir þarna upp eftir og hafa svo kraftinn í að koma sér áfram upp, sérstaklega eins og þeir eru að gera þegar þeir velja sér svona ofboðslega bratta leið.“

Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson. Leiðin sem þeir félagar fóru …
Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson. Leiðin sem þeir félagar fóru upp Pumori er enn kölluð íslenska leiðin og kveðst Leifur Örn ekki vita til þess að hún hafi verið endurtekin. mbl.is

Jöklarnir þynnri og leiðin brotnari

„Það er ofboðslegt líkamlegt atgervi sem þarf í þetta,“ segir Leifur Örn. „Fjallið er erfitt og þegar maður er kominn í yfir 7.000 metra hæð þá er þetta erfitt.“

Hann segir jöklana líka hafa breyst frá því að fyrst var farið á Pumori. „Jöklarnir eru þynnri og leiðirnar brotnari,“ segir hann. Auk þess sé hætta á snjóflóðum og klakahruni alltaf fyrir hendi. „Almenna leiðin var auðfarnari er hún var farin fyrst og í dag er hún erfiðari en hún var fyrir 30 árum. Í dag er jökullinn sprungnari og í stað þess að þetta sé frekar samfelldur hryggur þá er nú meira um opnar sprungur með bröttum ísveggjum inn á milli og því meira um klifur.“

Leiðin sem þeir Þorsteinn og Kristinn fóru upp var þó alltaf erfið. „Hún var í rauninni klifur allan tímann. Þetta er veggbrött leið sem þeir fara og á fjallamennskumælikvarða erfið en mjög falleg.“

Íslenska leiðin ekki verið endurtekin

Leiðangur þeirra Kristins og Þorsteins var önnur Himalaja-ferð þeirra félaga saman, en þriðja ferð Þorsteins á svæðið. Áður höfðu þeir fengið leyfi til að fara á Gagnapurna á Annapurna-svæðinu og voru þá með í för þau Torfi Hjaltason og Anna Lára Friðriksdóttir. Jökullinn á fjallinu reyndist þeim hins vegar mjög erfiður og komst hópurinn aldrei að fjallinu til að hefja klifrið.

„Næst völdu þeir Pumori og voru þá búnir að fara í mjög flottan leiðangur í Andesfjöllin nokkrum árum áður með þessum sama hópi og Pumori átti að vera betra val en Gagnapurna,“ segir Leifur Örn og kveður þá hafa haft Breta sér til aðstoðar. „Þegar þeir komu að fjallinu var hins vegar það margt fólk að þeir eru stórhuga og leita í suðvesturhlíðina og gera þar nýja leið sem enn er kölluð íslenska leiðin og sem ég veit ekki til að hafi verið endurtekin.“

Það sást til þeirra Kristins og Þorsteins halda frá föstu línunum sínum upp á toppinn og þeir sáust í mikilli nálægð við tindinn. Leifur Örn segir líkfundinn því engu breyta um þá trú manna að þeir hafi komist á toppinn.

Þriðji Íslend­ing­ur­inn, Ari Gunn­ars­son, fórst þessum á sömu slóðum árið 1991, en auk þess hafa þau Anna Svavarsdóttir og Ívar F. Finn­boga­son reynt að komast á topp Pumori hvort í sinni ferðinni, en urðu frá að hverfa er þau voru í um 6.500 metra hæð.

Mikið högg fyrir lítið samfélag

Brött hlíð er milli tveggja efri tjaldbúðanna á Pumori og þurfa aðstæður að sögn Leifs Arnar að vera góðar til að fara þar upp. „Þar er hætt við snjóflóðum og ekkert vit raunar að vera þar á ferð nema aðstæður séu góðar.“ Frá þriðju og efstu búðunum sem eru í ca. 6.400 metra hæð er svo hryggur sem er fylgt upp á toppinn og er sá hluti því öruggari fyrir snjóflóðum.

Anna rifjaði upp í Kastljósinu í gær að hópur fimm Spánverja sem hafði verið í samfloti með hennar hópi á fjallinu 2001 hefði farist í snjóflóði í þeirri ferð.

Leifur Örn segir sér ekki kunnugt um að Íslendingar hafi reynt að komast á topp Pumori frá því að Ívar var þar á ferð 2005. Spurður hvers vegna segir hann lát þeirra Þorsteins og Kristins hafa verið mikið áfall. „Þetta var náttúrulega bara högg fyrir íslenska fjallasamfélagið. Það er það mikið af fjöllum í heiminum að Íslendingar hafa ekki reynt þetta fjall aftur þó að það sé fallegt.“

Hann neitar því ekki að sagan af Pumori hafi haft áhrif á hann sjálfan. „Því þó að fjallið sé fallegt þá hef ég aldrei sett það á stefnuskrá að klífa það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert