„Það blasir við að ríkisstjórnaflokkarnir eru allir að tapa fylgi samkvæmt þessum könnunum og á móti græða stjórnarandstöðuflokkarnir,“ segir Eva Heiða Önnudóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. um nýja könnun sem MMR sendi frá sér í gær.
Samkvæmt könnuninni fer stuðningur við ríkisstjórnina minnkandi. Sögðust 37,9% styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 43,2% í síðustu mælingu.
Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn í könnuninni mældist 19,8% sem er einu prósenti minna en síðast. Fylgi Framsóknarflokks mældist nú 8,8% en var 7,8% í síðustu könnun og Vinstri græn voru með 11,% sem er svipað og í síðustu könnun.
Samfylkingin mældist með 16,6% fylgi og Miðflokkurinn með 12,1% fylgi og er það svipað hjá báðum flokkum og í síðustu könnun. Píratar töpuðu tæplega tveimur prósentustigum af fylgi sínu frá síðustu könnun og mældust með 11,3% fylgi. Viðreisn var nú með 7,8%, en mældist 9,9% í síðustu könnun, á meðan Flokkur fólksins mældist með 7,3% nú, en 5,9% í síðustu könnun.
Eva Heiða segir mörg fordæmi fyrir því að fylgi stjórnarflokkanna dali þegar líður á kjörtímabilið. „Það er oft með kannanir sem eru gerðar á miðju kjörtímabilinu að þær endurspegla ánægju með störf ríkisstjórnarinnar og það eru fjölmörg fordæmi fyrir því að stjórnarflokkarnir fái þá aðeins minna.“ Ekki sé hins vegar gefið að það yrði niðurstaðan ef gengið yrði til kosninga nú.
Hún segir það þó vera ansi lágt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fara undir 20%, en þetta er í annað skipti sem það gerist í könnunum MMR frá því í október 2008. Fyrra skiptið var í október í fyrra, en þá mældist flokkurinn með 19,9% fylgi.
Að sögn Evu Heiðu kann aukin samkeppni á hægri væng stjórnmálanna að endurspegla þessar tölur. „Þeir kjósendur sem vilja kjósa frá miðju og til hægri hafa nú úr fleiri flokkum að velja,“ segir hún og vísar þar til Viðreisnar og Miðflokksins sem keppinauta á þeim armi til viðbótar við Framsóknarflokkinn.
„Það má alveg hugsa sér það sem ákveðna breytingu hægra megin við miðju að nú eru komnir fleiri flokkar sem eru vænlegir kostir að því leyti að þeir eru nógu stórir til að geta fengið kosningu.
Það er breytt staða á hægri vængnum, en er eitthvað sem flokkarnir á vinstri vængnum eru búnir að vera að fást við í áratugi og eru því kannski vanari.“