Fjórðungi verið nauðgað eða það reynt

24 þúsund konur hafa þegar tekið þátt í rannsókninni og …
24 þúsund konur hafa þegar tekið þátt í rannsókninni og vonast Arna til þess að enn fleiri eigi eftir að svara. mbl.is

Fjórðungi þeirra kvenna sem tekið hafa þátt í rannsókn á áfallasögu kvenna á Íslandi hefur verið nauðgað eða tilraun verið gerð til þess að nauðga þeim. Hlutfallið er hærra en sést hefur annars staðar, erlendis og hér á landi. „Þetta þykir okkur sláandi,“ segir Arna Hauksdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

24 þúsund konur hafa þegar tekið þátt í rannsókninni og vonast Arna til þess að enn fleiri eigi eftir að svara rannsókninni og hvetur allar konur til þátttöku. Fjallað var um málið í Speglinum á RÚV í kvöld.

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna hátt hlutfall nauðgana og nauðgunartilrauna. Þá hefur fimmtungur þeirra sem svöruðu orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og sama hlutfall kvenna átt erfiða fæðingarreynslu. Helmingur hafði orðið fyrir kynferðislegri áreitni, og helmingur fyrir einelti eða andlegu ofbeldi, ýmist á æsku- eða fullorðinsárum.

Arna segir það verða spennandi að halda áfram og að niðurstöðunum beri að taka með þeim fyrirvara að mögulegt sé að þær konur hafi svarað fyrst sem hafi upplifað áföll, sem gæti valdið skekkju. „Svo getur líka verið að umræða síðustu ára í sambandi við #metoo hafi verið lærdómur fyrir konur, þær hafi endurhugsað sína lífsreynslu.“

Aðstandendum rannsóknarinnar er mikið í mun að fá fleiri konur til að taka þátt, líka þær sem ekki telja sig hafa orðið fyrir áföllum. „Okkur finnst það sérstaklega mikilvægt. Við heyrum stundum að konum finnist þær ekki þurfa að taka þátt því þær hafi ekki upplifað áföll, en við höfum heyrt frá konum sem töldu sig ekki hafa upplifað áföll að þær hafi komist að því í rannsókninni þegar þær merktu við hluti sem þær höfðu ekki hugsað út í.“

„En við viljum ekki síður fá þær til að taka þátt sem hafa svo sannarlega engin áföll á bakinu, af því við þurfum að fá rétta mynd og samanburðarhóp til þess að geta skoðað þetta í kjölinn og sagt með réttu hvaða hlutfall íslensku kvenþjóðarinnar hefur upplifað hin og þessi áföll.“

Hægt er að taka þátt í rannsókninni á afallasaga.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert