„Fullkominn misskilningur“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vísar því á bug að verið sé …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vísar því á bug að verið sé að draga úr hækkun framlags til öryrkja vegna aðhaldsaðgerða. mbl.is/​Hari

„Það er fullkominn misskilningur að um sé að ræða einhvers konar hagræðingaraðgerð eða viðbrögð við nýrri þjóðhagsspá,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is um fréttir af því að meirihlutinn hafi í fjárlaganefnd ákveðið að draga úr hækkun framlags til öryrkja, úr fjórum milljörðum í 2,9 milljarða.

Bjarni segir að stefnt sé að því að standa við áætlanir um aukningu upp á fjóra milljarða, hins vegar hefur sú upphæð tekið mið af vinnu við innleiðingu kerfisbreytinga og liggur ekki fyrir endanleg niðurstaða þeirrar vinnu.

Standa við fyrri orð

„Það er orðið afar ólíklegt að kerfisbreytingin geti tekið gildi fyrsta janúar. Við erum að horfa til þess að hún geti tekið gildi eftir fyrsta ársfjórðung og það leiðir þá til þess að þessi fjögurra milljarða aukning fellur til að þremur fjórðu hlutum á næsta ári, en er síðan að fullu inni í okkar langtímaáætlunum eins og birtist í fjármálaáætluninni,“ segir hann.

„Þetta er einfaldlega mat okkar á stöðu við að innleiða breytingar á réttindum öryrkja. Við ætlum með fullu að standa við það sem áður hefur verið sagt, að samhliða breytingunum sé svigrúm í okkar áætlunum um fjóra milljarða á ári,“ bætir fjármálaráðherra við.

Áætlað var að framlög til almannatrygginga og öryrkja myndu hækka um sex milljarða á næsta ári, þar af voru fjórir milljarðar vegna umræddra kerfisbreytinga. Þannig verður aukning framlaga til málaflokksins um fimm milljarðar í stað sex milljarða, að sögn ráðherrans.  

Gefa súrefni inn í hagkerfið

„Við aðra umræðu fjárlaga eru menn að vinna með nýja hagspá og í henni birtist örlítið meiri verðbólga en gert var ráð fyrir. Við þurfum að taka tillit til ýmissa þátta, til dæmis varðandi laun og verðlag á næsta ári. Síðan erum við að meta tekjuhliðina og breytingar á henni,“ svarar Bjarni spurður um aðrar breytingar á fjárlögum.

„Við höfum þurft að endurmeta stöðu ýmissa framkvæmda og þurft að spyrja okkur hvort þörf sé fyrir allar þær fjárheimildir sem áður var gert ráð fyrir til framkvæmda,“ útskýrir hann og vísar meðal annars til framkvæmda við Landspítala.

„Það sem er að gerast heilt yfir eru óskaplega litlar breytingar,“ segir Bjarni og bendir á að það falla til ný útgjöld og þörf var á að hagræða fyrir þeim með því að gera aðhaldskröfu upp á 1,5 milljarða í rekstrinum, en það er um 0,017% áætlaðra útgjalda. Hann segir að það sé fyrsta skipti í mjög langan tíma sem látið er reyna á 1% afkomumarkmið ríkissjóðs og að þegar ný útgjöld falli til verði að hagræða til þess að ná markmiðinu.

„Það er ekki verið að fresta því sem áður hefur verið kynnt í samgöngumálum, enda held ég að þegar fer aðeins að hægja á hagkerfinu getur verið skynsamlegt að setja kraft í framkvæmdir, halda aftur af varanlegum ríkisútgjöldum og frekar að lækka skatta. Gefa súrefni inn í hagkerfið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka