Minjastofnun Íslands hefur ákveðið að stöðva framkvæmdir á byggingarsvæði Lindarvatns ehf. á Landssímareitnum eftir að kistuleifar fundust í Víkurgarði í gær.
Stöðvunin gildir þangað til Minjastofnun hefur haft tækifæri til að kynna sér aðstæður á svæðinu og ákveða hvort svæðið verður friðlýst eða hvort stofnunin veitir heimild til frekari rannsókna á svæðinu.
Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, segir í samtali við mbl.is að kistuleifarnar hafi fundist í kirkjugarðinum sem er þarna á svæðinu. Þetta er í fyrsta sinn sem stofnunin stöðvar framkvæmdir þarna síðan þær hófust fyrr á árinu. Tölvupóstur var sendur á framkvæmdaaðila vegna þessa.
Hún bætir við að fornleifafræðingar muni rannsaka fundinn. Aðspurð segist hún ekki vita hvenær framkvæmdir gætu hafist að nýju.
Uppfært kl. 00.16:
Að sögn Völu Garðarsdóttur fornleifafræðings var farið í framkvæmdaeftirlit í gær, samkvæmt leyfi Minjastofnunar, vegna framkvæmda í Víkurgarði og á Landssímareitnum.
Við eftirlitið komu í ljós kistuleifar inni í Víkurgarði, nokkrum metrum fyrir utan framkvæmdasvæðið, og samkvæmt starfsreglum voru framkvæmdir stöðvaðar. Haft var samband við Minjastofnun sem kom á vettvang í dag.
Að sögn Völu er líklega um að ræða hreyfðar kistuleifar frá árinu 1967. Enga beinagrind er aftur á móti að sjá á svæðinu, en fram kom að beinagrind hefði fundist þar í fyrri pósti af tveimur sem Minjastofnun sendi framkvæmdaaðilum. Fréttin hefur verið leiðrétt vegna þess.
Ekkert verður snert meira innan framkvæmdasvæðisins vegna fundarins á meðan fornleifafræðingar skrá fundinn. Að öllum líkindum verður framkvæmdum haldið áfram eftir helgi.