„Ljót pólitík gagnvart viðkvæmum hópi“

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, sakar í samtali við mbl.is Ágúst Ólaf Ágústsson, annan varaformann fjárlaganefndar og þingmann Samfylkingarinnar, um að stunda „ljóta pólitík gagnvart viðkvæmum hópi.“

Ágúst Ólafur staðhæfði í kvöldfréttum RÚV í gær að „svo virðist sem ríkisstjórnin sé að mælast til að öryrkjar, sem ekki voru að fá mikið til að byrja með, þurfi að taka á sig milljarðs króna lækkun.“

„Það er fullt af öryrkjum sem trúa því í dag að út af þessu [orðum  Ágústs Ólafs] sé verið að lækka bæturnar, sem er alvarlegt mál. Þetta er ljót pólitík. Það er ekki verið að lækka bætur og það er ekki verið að taka neitt af öryrkjum. Bætur til öryrkja eru ekki að lækka. Það er mikilvægt að svona staðreyndir séu á hreinu vegna þess að þetta er alvarlegt mál gagnvart þeim viðkvæma hópi sem við erum að tala um,“ segir Willum.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Út og suður

Um upplýsingar um að dragi úr framlögum til annarra málaflokka segir Willum að það sé mikil raunaukning framlaga í fjárlagafrumvarpinu. Það sé verið að auka útgjöldin á raungildi eins og lagt var upp með.

„Í fyrsta lagi er ekki búið að birta frágengið skjal, þannig að það eru alls konar upplýsingar sem eru að fljúga hér út og suður. Nettó niðurstaðan er sú sama vegna þess að við vorum búin að leggja upp með að fylgja afkomureglu í lögum um opinber fjármál, um að skila 1% afgangi af vergri landsframleiðslu.“

Breytingarnar sem fylgdu endurmetinni hagspá voru að gripið var til almennra ráðstafana í gegnum öll ráðuneytin að hliðra til verkefnum og lækka ákveðin útgjöld svo það myndi ekki breyta heildarmyndinni, að sögn Willums.

„Svo erum við komin svo nálægt árinu 2019 að verkefni sem hafa tafist af einhverjum orsökum, fara yfir á árið 2020. Þess vegna er dregið saman í útgjaldaheimildum þar,“ útskýrir hann. „Það eru ákveðin verkefni sem hafa af ýmsum orsökum tafist. [...] Aðallega verið að hliðra til í verkefnum, en enn þá sama raunútgjaldaukningin og verður þannig séð innspýting í hagkerfið.“

„Ég held að menn ættu bara að anda með nefinu og leyfa þessu frumvarpi að birtast og taka aðra umræðu þegar allt liggur fyrir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert