Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að ný aðferðafræði Hagstofu Íslands við útreikninga á vinnustundum hafi ekki áhrif á kröfu félagsins um styttingu vinnuvikunnar í komandi kjaraviðræðum.
Miðað við nýbirt gögn frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) má draga þá ályktun að Ísland sé í hópi þeirra ríkja heimsins þar sem unninn er hvað stystur vinnudagur en ekki lengstur eins og gjarnan hefur verið gengið út frá hér á landi.
„Miðað við þessar nýju tölur erum við að vinna 30 stunda vinnuviku og ég held að það blasi við að við erum ekki að vinna 30 stunda vinnuviku,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is. Hann setur spurningarmerki við þá aðferð að taka meðaltal af vinnustundum fólks í fullu starfi og hlutastarfi, líkt og gert er í nýrri aðferðafræði stofnunarinnar. „Ef þú tekur allan vinnumarkaðinn og hlutastörfin líka og býrð til meðaltal þá að sjálfsögðu færðu ákveðnar niðurstöður. Í sjálfu sér er ekkert rangt við útreikninginn en hann gefur ekki rétta mynd af stöðunni,“ segir Ragnar.
Hagstofan greindi frá því í febrúar að ný aðferðafræði stofnunarinnar við útreikninga á vinnustundum benti til þess að fjöldi vinnustunda hér á landi væri minni en áður hafi verið talið og að munurinn gæti verið á bilinu 16-22%. Samkvæmt nýju aðferðinni við útreikninga á vinnustundum er Ísland í flokki þeirra ríkja heims sem vinna fæstar vinnustundir ólíkt því sem áður var talið og framleiðni hér er ein sú hæsta meðal ríkja OECD.
Í umfjöllun Seðlabanka Íslands um nýju tölur Hagstofunnar segir að fjöldi vinnustunda kunni að vera ofmetinn í spurningakönnunum eins og vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar þar sem svörin byggjast á minni og upplifun svarenda og þeir telji kjarasamningsbundinn frítíma, til dæmis matartíma, til vinnutíma.
Ragnar segir að þessi nýja framsetning veki upp mjög margar spurningar, sérstaklega varðandi útreikninga annarra Hagstofa. „Við vitum í raun ekki hvernig hagstofur annarra landa reikna þetta eða setja fram sínar tölur. Eina sem við vitum er að vinnuvikan hér, af þeim sem eru starfandi í fullu starfi, er lengri heldur en í þeim löndum sem við berum okkur saman við, það verður ekkert deilt um það.“
Hann segir að til að fá nákvæman samanburð sé þörf á umfangsmiklu verkefni með yfirsýn frá einni stofnun, og nefnir hann Evrópusambandið sem dæmi, þar sem allir myndu skila sömu upplýsingum eftir ákveðnum stöðlum. „Þetta snýst um að bera saman sambærilega tölfræði þar sem forsendurnar eru þær sömu en ekki það að við fáum út mynd sem er í engu samræmi við raunveruleikann eins og virðist vera að nást með þessum nýju breytingum, sem er ekkert endilega röng nálgun, en við þurfum að bera saman sömu forsendurnar til að fá samanburðarhæfar niðurstöður,“ segir Ragnar.
Stytting vinnuvikunnar, eða breyting á vinnutímanum, verður mjög stórt mál í næstu kjarasamningum að sögn Ragnars, óháð nýrri aðferðafræði við útreikning vinnustunda.
„Ástæðan fyrir því að við erum að berjast fyrir styttri vinnuviku er að fólkið okkar er að gefast upp. Við höfum séð gríðarlegar breytingar á stöðu sjúkrasjóða stéttarfélaga. Nýjustu tölur benda til að aukningin á greiðslu sjúkradagpeninga vegna álagstengdra kvilla eru enn að aukast þrátt fyrir fordæmalausar tölur sem við vorum að sjá fyrstu mánuði ársins 2018, tölur sem hafa ekki sést áður. Þetta er mikið áhyggjuefni og við eigum að beina umræðunni þangað,“ segir Ragnar.
Þá segir hann það skipta máli fyrir samfélagið allt að vinnuvikan verði stytt. „Þetta er líka gríðarlegt hagsmunamál fyrir atvinnulífið því það er gríðarlega kostnaðarsamt að missa verðmætt starfsfólk í kulnun eða út af vinnumarkaði. Það er mikið keppikefli hjá öllu samfélaginu að við tökumst á við þetta.“